Fótbolti

Al-Ittihad undirbýr tæplega tuttugu milljarða tilboð í Salah

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Al-Ittihad vill fá Mohamed Salah í sínar raðir.
Al-Ittihad vill fá Mohamed Salah í sínar raðir. Alvaro Medranda/Eurasia Sport Images/Getty Images

Sádiarabíska félagið Al-Ittihad virðist ekki vera tilbúið að gefast upp á því að fá egypska sóknarmanninn Mohamed Salah í sínar raðir frá Liverpool. Félagið undirbýr nú nýtt risatilboð í leikmanninn.

Frá þessu er greint á vef The Daily Mail í dag þar sem kemur fram að Al-Ittihad muni bjóða 118 milljónir punda í Salah, en það samsvarar um 19,7 milljörðum króna. 

Þar segir einnig að forráðamenn Al-Ittihad séu vissir um að tilboðið heilli Salah, en Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur þó staðið fastur á því að leikmaðurinn sé ekki á förum frá félaginu.

Þá hefur Ramy Abbas, umboðsmaður Salah, einnig reynt að róa taugar stuðningsmanna Liverpool með því að segja að leikmaðurinn sé ekki á förum í sumar. Þrátt fyrir það telja forráðamenn Al-Ittihad að tilboð upp á tæplega tuttugu milljarða króna gæti fengið Liverpool og Salah til að endurskoða ákvörðun sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×