Innlent

Brim­­borg láti við­­skipta­vini og starfs­menn vita af öryggis­bresti

Kjartan Kjartansson skrifar
Persónuvernd fékk tilkynningu um netárásina á Brimborg og vill að fyrirtækið láti starfsmenn og viðskiptavini vita af því að persónuupplýsingar þeirra kunni að vera í hættu.
Persónuvernd fékk tilkynningu um netárásina á Brimborg og vill að fyrirtækið láti starfsmenn og viðskiptavini vita af því að persónuupplýsingar þeirra kunni að vera í hættu. Vísir/Vilhelm

Persónuvernd hefur sagt bílaumboðinu Brimborg að láta starfsmenn og viðskiptavini fyrirtækisins vita af því að netárás kunni að hafa ógna öryggi persónuupplýsinga þeirra. Tölvuþrjótar læstu aðgangi að gögnum Brimborgar og kröfðust lausnargjalds.

Netárásin átti sér stað aðfararnótt þriðjudag. Fyrirtækið átti afrit af gögnunum og tókst að koma tölvukerfum sínum aftur í gang í gærkvöldi og í morgun, að sögn Egils Jóhannsonar, forstjóra Brimborgar. Hann sagði Vísi í morgun að verið væri að kanna hvort að þrjótarnir hefðu afrit af gögnunum, þar á meðal ýmsum persónuupplýsingum um viðskiptavini.

Persónuvernd var tilkynnt um öryggisbrestinn. Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir stofnunin að öryggisbresturinn nái til persónuupplýsinga bæði starfsmanna og viðskiptavina Brimborgar samkvæmt tilkynningunni sem henni barst.

„Persónuvernd hefur, fyrr í dag, beint þeim fyrirmælum til Brimborgar að gera skráðum einstaklingum viðvart um öryggisbrestinn,“ segir í svarinu.

Þá hefur eftirlitsstofnunin óskað eftir upplýsingum um þær öryggisráðstafanir sem Brimborg viðhafði í aðdraganda öryggisbrestsins og að stofnunin fái frekari upplýsingar um atvikið þegar þær liggja fyrir.

Á meðal þeirra persónuupplýsinga sem Brimborg safnar um viðskiptavini eru nöfn, kennitölur, símanúmer, tölvupóstföng og ökuskírteinisnúmer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×