Fótbolti

Búist við 200 milljóna risatilboði frá Sádi-Arabíu í Salah

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Al-Ittihad ætlar ekki að gefast upp á því að fá Salah.
Al-Ittihad ætlar ekki að gefast upp á því að fá Salah. Visionhaus/Getty Images

Þrátt fyrir að félagsskiptaglugginn í stærstu deildum Evrópu hafi lokað í gær er enn um vika eftir af glugganum í Sádi-Arabíu. Búist er við því að Al-Ittihad muni bjóða 200 milljónir punda í Mohamed Salah, leikmann Liverpool.

Al-Ittihad bauð Liverpool 150 milljónir punda fyrir Salah í gær, en enska félagið hafnaði boðinu um leið. Búist er við því að félagið muni hækka boðið umtalsvert á næstu dögum og að nýtt tilboð muni hljóða upp á 200 milljónir punda, sem samsvarar um 33,5 milljörðum króna.

Það er breski miðillinn The Daily Mail sem greinir frá þessu. Reynist það rétt verður Salah dýrasti leikmaður sögunnar ef Liverpool samþykkir tilboðið.

Félagsskiptagluggin í Sádi-Arabíu lokar ekki fyrr en 7. september og liðið hefur því enn nægan tíma til að undirbúa og leggja fram tilboðið. Það er þó nokkuð ljóst að Liverpool vill ekki missa einn af sínum bestu mönnum síðustu áratugi og því gæti reynst erfitt að sannfæra félagið um að selja Salah.

Salah hefur verið í herbúðum Liverpool frá árinu 2017 og unnið allt nánast sem hægt er að vinna með félaginu. Alls hefur hann leikið 308 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim 187 mörk, ásamt því að leggja upp 81 í viðbót fyrir liðsfélaga sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×