Enski boltinn

Stuðningsmaður Arsenal skallaði Roy Keane

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roy Keane komst í hann krappann í gær.
Roy Keane komst í hann krappann í gær. getty/Marc Atkins

Þrátt fyrir að tæp tuttugu ár séu síðan Roy Keane lagði skóna á hilluna hafa vinsældir hans hjá stuðningsmönnum Arsenal ekkert aukist. Það kom bersýnilega í ljós í gær.

Daily Mail greinir frá því að stuðningsmaður Arsenal hafi skallað Keane á meðan leik Arsenal og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í gær stóð. Keane var sérfræðingur hjá Sky Sports á leiknum.

Stuðningsmaðurinn rakst á Keane þegar hann var að bíða eftir lyftu til að komast niður á völlinn. Hann skallaði gamla United-fyrirliðann og hitti hann í brjóstið og á kinnina en Keane slapp ómeiddur frá þessari uppákomu.

Micah Richards, félagi Keanes, tók í stuðningsmanninn en Keane var öllu rólegri og reyndi að fá Richards til að drífa sig niður á völl eins og sjá má í myndbrotinu hér fyrir neðan.

Lögreglan er með málið til rannsóknar samkvæmt yfirlýsingu sem Sky sendi Daily Mail.

Atvikið átti sér stað um það leyti sem Alejandro Garnacho skoraði á 88. mínútu í leiknum á Emirates. Markið var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu og í kjölfarið skoraði Arsenal tvö mörk og tryggði sér 3-1 sigur.

Arsenal er með tíu stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni en United sex. Ekki verður spilað í deildinni næstu dagana vegna landsleikja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×