Íslenski boltinn

Ræddu stöðu KA: „Fram­ganga liðsins í Ís­lands­mótinu klár von­brigði“

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik KA í sumar
Frá leik KA í sumar Vísir/Hulda Margrét

Framganga KA í Bestu deild karla á yfirstandandi tímabili er klár vonbrigði að mati Atla Viðars Björnssonar, sérfræðings í uppgjörsþáttunum Stúkan á Stöð 2 Sport.

KA mun taka þátt í úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildarinnar og getur hæst náð 7.sæti deildarinnar. Þetta varð ljóst eftir lokaumferðina í hinni hefðbundnu deildarkeppni Bestu deildarinnar í gær.

„Já, það er klárt mál,“ svaraði Atli Viðar, einn af sérfræðingum Stúkunnar, aðspurður hvort tímabilið í heild sinni væru vonbrigði fyrir KA. „KA getur ekki sagt að þeir séu ánægðir með tímabilið þegar að þeir komu út fyrir tímabilið og sögðust ætla vera í titilbaráttu og á þeirri stundu í raun fúlir út í allt og alla fyrir að spá þeim ekki titilbaráttu. 

Þeir eru í 7.sæti, klifu upp um eitt sæti á lokametrunum og vel gert hjá þeim að koma sér í séns fyrir úrslitakeppni efrihlutans fyrir lokaumferðina en það var bara of lítið og of seint að taka sjö stig úr síðustu þremur leikjunum. 

Brasið á þeim er bara búið að vera of mikið í deildinni til þess að þeir geti reynt að sannfæra okkur og við getum haldið því fram að þeir hafi átt gott tímabil.“

Klippa: Ræddu stöðu KA: Bikar myndi breyta öllu

Greip þá Baldur Sigurðsson, annar sérfræðingur Stúkunnar, þá inn í og vildi fá að vita það frá Atla Viðari hvort hann væri að taka inn í jöfnuna þá staðreynd að KA komst í 3. umferð Sambandsdeildar Evrópu, laut þar í lægra haldi gegn belgíska liðinu Club Brugge og er komið í úrslitaleik Mjólkurbikarsins. 

„Ertu ósammála þessu?“ svaraði Atli Viðar á móti en Baldur segir að líta verði heildrænt á stöðuna.

„Ég myndi aldrei segja vonbrigði,“ sagði Baldur sem finnst ósanngjarnt að lagt sé mat á tímabil KA nú þegar að liðið á eftir að spila bikarúrslitaleik gegn Víkingi Reykjavík og gat Atli Viðar tekið undir það. 

„Ef þeir vinna bikarinn, komast í Evrópukeppni og komast frá tímabilinu með titil í höndunum. Það myndi náttúrulega breyta öllu,“ sagði Atli Viðar. „En að enda fyrir neðan strik og í 7.sæti í deildinni, þá er framganga liðsins í Íslandsmótinu klár vonbrigði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×