Viðskipti erlent

Fram­­leiðandi Wegovy, Ozempic og Saxenda nú verð­mætasta fyrir­­­tæki Evrópu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Wegovy og Ozempic eru í raun ætluð einstaklingum sem glíma við áunna sýkursýki.
Wegovy og Ozempic eru í raun ætluð einstaklingum sem glíma við áunna sýkursýki. epa/ida Marie Odgaard

Danski lyfjarisinn Novo Nordisk er verðmætasta fyrirtæki Evrópu samkvæmt nýjustu tölum og tekur við titlinum af tískurisanum LVMH sem meðal annars framleiðir vörur undir merkjum Luis Vuitton og áfengi á borð við Moét og Hennessy.

Ástæða velgengni lyfafyrirtækisins er einföld en það er framleiðandi þyngdarstjórnunarlyfsins Wegovy sem nýtur gríðarlegra vinsælda um þessar mundir. 

Lyfið fékk markaðsleyfi í Bretlandi í nótt og í morgun höfðu bréf í félaginu tekið stórt stökk upp á við.

 Fyrirtækið er nú metið á tæpa 430 milljarða dollara. 

Wegovy er notað sem meðferð við sykursýki 2 og offitu en lyfið dregur úr hungurtilfinningu þannig að fólk borðar minna. 

Lyfið hefur líka slegið í gegn hjá fræga fólkinu og menn á borð við Elon Musk eru sagðir á meðal notenda þess. Sérfræðingar hafa þó ítrekað varað við að ekki sé um kraftaverkalyf að ræða og að rannsóknir hafi sýnt að þeir sem noti lyfið bæti á sig kílóunum aftur þegar þeir hætta á lyfinu.

Þess ber að geta að Novo Nordisk framleiðir einnig Ozempic og Saxenda, sem einnig hafa notið gríðarlegra vinsælda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×