Skoðun

„Stjórn­sýsla Ís­lands er lítil“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fjallað var um umfang stjórnarráðsins á Íslandi í fjölmiðlum á dögunum og ekki sízt þá staðreynd að samanlagt störfuðu rúmlega 700 manns í ráðuneytum landsins. Full ástæða er til slíkrar umfjöllunar og um leið er vert að hafa í huga þá staðreynd að kæmi til inngöngu í Evrópusambandið á einhverjum tímapunkti í framtíðinni myndi það fyrir utan annað hafa í för með sér umfangsmikla útþenslu stjórnsýslunnar hér á landi svo hún gæti staðið undir þeim kröfum sem fylgdu veru í sambandinu – samkvæmt gögnum þess sjálfs.

Forystumenn Viðreisnar hafa annað slagið á liðnum árum átt það til að berja sér á brjóst og gagnrýna umfang stjórnsýslunnar hér á landi harðlega. Meðal annars og ekki sízt ráðuneytanna. Hins vegar er ljóst að hljóð og mynd hefur á engan hátt farið saman í þeim málflutningi enda á sama tíma helzta, og í raun eina, stefnumál flokksins að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið sem myndi, eins og áður segir, þýða mikla útþenslu hins opinbera hér á landi sem næg er fyrir. Þetta tvennt getur því á engan hátt farið saman.

Telur íslenzku ráðuneytin vera of lítil

Fjallað er til að mynda um smæð íslenzku stjórnsýslunnar að mati Evrópusambandsins í skjali frá árinu 2011 sem unnið var af framkvæmdastjórn sambandsins sem nefnist „Commission decision of 08.04.2011 on a Multi-annual Indicative Planning Document (MIPD) 2011-2013 for Iceland“ í tengslum við umsókn þáverandi vinstristjórnar um inngöngu í það. Þar leynir sér ekki það álit Evrópusambandsins að stjórnsýslan hér á landi sé vegna smæðar engan veginn í stakk búin til þess að ráða við inngöngu í sambandið:

„Heilt á litið er stjórnsýslan lítil og býr við takmarkaðar fjárveitingar. […] Ísland mun þurfa að byggja upp getu stjórnsýslunnar til þess að taka upp, þýða og innleiða löggjöf Evrópusambandsins og koma á laggirnar öllum þeim nauðsynlegu innviðum sem vera innan sambandsins krefst. […] Stjórnsýsla Íslands er lítil. Hjá stjórnarráðinu starfa um 700 opinberir starfsmenn og það samanstendur af tíu ráðuneytum. Undir hvert þeirra heyrir nokkur fjöldi opinberra stofnana. Ráðuneytin eru lítil og hafa á bilinu 26 til 214 starfsmenn.“

Fullkomlega ótrúverðugur málflutningur

Með öðrum orðum er ljóst að farið yrði úr öskunni í eldinn þegar kemur að umfangi hins opinbera hér á landi ef til þess kæmi að Ísland gengi í Evrópusambandið. Eins er ljóst að málflutningur þeirra stjórnmálamanna sem gagnrýna umfang íslenzku stjórnsýslunnar á sama tíma og þeir tala fyrir inngöngu í sambandið, eins og forystumanna Viðreisnar, er fullkomlega ótrúverðugur. Þannig liggur fyrir að Evrópusambandið telur það allt of lítið sem forystumenn Viðreisnar vilja telja kjósendum trú um að þeir telji allt of stórt.

Hitt er svo annað mál að ekkert af þessu þarf vitanlega að koma á óvart enda taka kröfur Evrópusambandsins um stjórnsýslu eðli málsins samkvæmt mið af milljóna- og tugmilljónaþjóðum. Stjórnsýsla sambandsins bætist síðan allajafna við sem yfirbygging ofan á þá yfirbyggingu sem fyrir er í ríkjum þess og kostnaðinn af henni er greiddur af skattgreiðendum þeirra. Hvernig sem á málið er litið er þannig ljóst að gagnrýni á umfang stjórnsýslunnar getur á engan hátt átt samleið með þeirri stefnu að gengið skuli í Evrópusambandið.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×