Morena-flokkur Andrés Manuel López Obrador, fráfarandi forseta, tilkynnti í gærkvöldi að Claudia Sheinbaum, fyrrverandi borgarstjóri Mexíkóborgar, hefði farið með sigur af hólmi í leiðtogakjöri flokksins. Hún verður því frambjóðandi flokksins í kosningum sem fara fram 2. júní á næsta ári.
Þar með var ljóst að tvær konur ættu að líkindum eftir að bítast um forsetastólinn því Xóchitl Gálvez leiðir Breiðfylkingu Mexíkó, kosningabandalag stjórnarandstöðuflokka, í kosningunum. Stofnanavæddi byltingarflokkurinn (PRI) sem fór með völdin í Mexíkó í sjötíu ár samfleytt til 2000 er einn flokkanna sem á aðild að breiðfylkingunni.
Gálvez er óháður öldungadeildarþingmaður sem vinnur með íhaldsflokknum Þjóðaraðgerðaflokknum á þingi.
Bæði Sheinbaum og Gálvez segja að Mexíkó sé tilbúið fyrir kvenforseta en að leiðin verði ekki auðveld.
Konum í valdastöðum hefur fjölgað í Mexíkó á undanförnum árum, meðal annars vegna kynjakvóta í stjórnmálum. Kyndbundið ofbeldi er hins vegar mikið og fjöldi kvenna er myrtur vegna kynferðis síns, að sögn AP-fréttastofunnar. Karlremba er sögð afar útbreidd í landinu.
Af frambjóðendunum tveimur er Sheinbaum talin sigurstranglegri eins og sakir standa. Morena-flokkurinn er við völd í 22 af 32 ríkjum Mexíkó og López Obrador forseti nýtur almennra vinsælda.