Menntamálaráðherra kynnti ásamt rektorum Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri skoðun á sameiningu skólanna tveggja fyrir nemendum og starfsfólki á þriðjudag. Nemendur MA mótmæltu fyrirhugaðri sameiningu harðlega í gær og lýstu yfir áhyggjum af því að menning innan skólanna tapaðist. Undirskriftasöfnun hefur verið hrundið af stað til að mótmæla mögulegri sameiningu sem á þriðja þúsund hafa skrifað undir.
„Ég hef lagt áherslu á það að í allri vinnu sem þessu tengist verði gætt að sögu, menningu og hefðum beggja skóla,“ segir Ásmundur Einar Daðason, menntamálaráðherra.
Hann segir nýjar áskoranir í menntakerfinu að baki breytingunum.
„Við erum að horfa upp á það að það er stór fjöldi nemenda sem bíður eftir að komast í starfsnám, sem er dýrara nám. Við erum með áskoranir þegar kemur að námsárangri, stöðu drengja. Stóraukinn fjölda barna af erlendum uppruna. Allt kallar þetta á að við gerum breytingar á menntakerfinu,“ segir hann.
„Stærri einingar eru betur í stakk búnar að mæta þessum áskorunum.“
MA og VMA eru ekki einu menntaskólarnir sem viðrað hefur verið að sameina. Í vor tilkynnti menntamálaráðuneytið að til skoðunar kæmi að sameina Kvennó og MS, Tækniskólann og Flensborg og Keili og FS. Starfsmenn skólanna mótmæltu margir hverjir harðlega en þær sameiningarhugmyndir enn stutt á veg komnar.
Ásmundur segir þessa skóla glíma við sömu áskoranir og MA og VMA. Til að mæta þeim sé nauðsynlegt að fá meira fjármagn.
„Við þurfum aukið fjármagn inn í skólana. Það er það sem við lögðum upp með til að mæta þessum áskorunum sem ég nefndi. Það hefur ekki fengist, meðal annars vegna ástandsins í þjóðfélaginu.“