Lífið

Alls konar kynja­verur fylltu Laugar­dals­höll

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hátíðin fór afar vel fram, að sögn skipuleggjenda.
Hátíðin fór afar vel fram, að sögn skipuleggjenda. Vísir/Ívar

Midgard-ráðstefnan, hátíð um allt sem einu sinni taldist nördalegt, náði hápunkti í Laugardalshöll í dag. Skipuleggjandi segir hátíðina hafa farið fram úr björtustu vonum.

Hátíðin fór fram um helgina en yfirskrift hátíðarinnar er að öll séu velkomin. Þannig sé ekki gerður greinarmunur á ævintýraheimum, heldur megi hver haga þátttöku sinni eftir eigin höfði.

„Búin að sprengja Laugardalshöllina“

„Það er búinn að vera stöðugur straumur af fólki hérna, við erum búnir að eiga svo góða tíma. Það hafa verið vinnustofur hérna, stöðugt fólk að spila og alls konar básar. Fólk er að koma hingað að alls staðar að úr heiminum, bæði sem gestir á hátíðina en einnig sem boðsgestir. Það er að segja, fólk sem var með vinnustofur eða panela,“ segir Ármann Ingunnarson samfélagsmiðlastjóri Midgard.

Hátíðinni var hleypt af stað árið 2018 og var þá í töluvert minni sal í Laugardalshöll.

„Núna, sjö árum seinna, erum við bókstaflega búin að sprengja Laugardalshöllina utan af okkur og notum allt plássið,“ heldur Ármann áfram.

Skiptir máli að hafa gert vel

Sérstök búningakeppni (e. cosplay) fór fram á hátíðinni og bar Snædís Jóhannesdóttir sigur úr býtum. Hún var klædd sem kvenkyns útgáfa af Loka, sem flestir Íslendingar ættu að þekkja.

„Meirihlutinn af búningnum er heimagerður og ef hann er ekki heimagerður þá er hann mikið breyttur. Ég er búin að leggja brjálæðislega mikinn tíma í að gera þetta að veruleika. Þetta er fyrsti búningurinn sem ég hef gert, fyrir utan kannski eitthvað þegar ég var sex ára eða eitthvað. Þannig að þetta skiptir mig miklu máli, að hafa gert svona vel,“ segir Snædís.

Loki Laufeyjarson hefur gjarnan þótt slægur og slunginn. Á myndinni er Snædís Jóhannsdóttir í gervi goðmagnsins.Stöð 2





Fleiri fréttir

Sjá meira


×