Málið snýr að umferðarlögum sem sett voru árið 2019 og tóku í gildi 2020 og hafa verið mikið til umræðu undanfarna daga eftir að hjón í Hveragerði voru handtekin í síðustu viku fyrir fíkniefnaakstur eftir að amfetamín mældist í blóði þeirra vegna ADHD lyfsins Elvanse sem þau taka bæði.
Galli í lögum sem þurfi að breyta
ADHD samtökin hafa nú skorað á stjórnvöld að breyta lögunum og setja reglugerð og segir formaður samtakanna galla í lögunum sem tafarlaust þurfi að breyta. Aðeins ein undanþága sé nú til staðar, læknisvottorð.
„Ef maður er ekki með það þá er maður sjálfkrafa handtekinn og farið með mann í blóðsýnatöku og síðan fer málið í kæruferli. Af því fólk er ekki með bréfið þá er það sekt um að keyra undir áhrifum ólöglegra fíkniefna og það sem meira er þá er ekki tekið við svona vottorðum eftir á,“ segir Vilhjálmur og bendir á að vandamálið sé til komið þar sem engin reglugerð hafi verið gerð.
Tillögur að breytingum í greinargerð
Án reglugerðar þurfi lögreglumenn að fara eftir fyrirmælum ríkissaksóknara frá 2020. „Bókstaflega og einhver lítill hópur lögreglumanna er að framkvæma þetta á frekar skrítinn hátt. Ég man ekki til þess að hafa heyrt nokkurn segja að lögreglan hafi spurt hvort þetta vottorð sé fyrir hendi heldur farið beint í að segja að þú sért að aka undir áhrifum ólöglegra fíkniefna,“ útskýrir Vilhjálmur jafnframt.
Í greinargerð sem samtökin sendu á stjórnvöld í morgun koma fram tillögur að breytingum og vonast Vilhjálmur til að málið verði unnið hratt og vel. „Ég ætla rétt að vona það, þetta er stórt og ljótt mál og þeir eiga að taka á þessu einn, tveir og tíu.“ Breytingarnar sem samtökin leggi til séu ekki stórvægilegar hins vegar þurfi að setja reglugerð við lögin sem allra fyrst til að koma í veg fyrir viðurlög og sektir.