Í frumvarpinu segir að ætlað sé að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum nemi 12,2 milljörðum króna árið 2024. Þar af sé 2,1 milljarður króna tilkominn vegna verðmætagjalds af fiskeldi.
Aukning tekna af veiðigjöldum sé í senn tilkomin vegna aukinnar framleiðslu en þó að mestu vegna hækkunar verðmætagjaldsins úr 3,5 prósent í 5 prósent og samspils þeirrar hækkunar við sólarlagsákvæði, sem sett var á við upptöku gjaldsins og rennur út í skrefum til ársins 2026.
Hækkun upp í fimm prósent er um 43 prósent hækkun og því má reikna með að hækkunin skili ríkissjóði um 900 milljónum króna aukalega af fiskeldi.
Veiðigjald byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns tveimur árum fyrir álagningu gjaldsins og sé lagt á í krónum á hvert kílógramm óslægðs afla. Áætlunin fyrir 2024 verði endurskoðuð þegar endanleg ákvörðun um álagningu veiðigjalda árið 2024 liggur fyrir hjá Skattinum í byrjun desember næstkomandi.