Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað í apríl í fyrra að fólki sem dvaldist á barnaheimili á Hjalteyri á áttunda áratug síðustu aldar yrðu greiddar sanngirnisbætur.
Fréttastofa hefur fjallað ítarlega um gríðarlegt líkamlegt og andlegt ofbeldi sem hjón sem höfðu umsjón með barnaheimilinu beittu skjólstæðinga sína.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024, sem birt var í morgun, segir að breytingar á fjárheimildum málaflokksins réttaraðstoð og bætur felist annars vegar í 410 milljóna króna tímabundnu framlagi til uppgjörs á sanngirnisbótum vegna misgjörða á vistheimilinu fyrir börn á Hjalteyri.
Hins vegar 5,2 milljóna króna hlutdeild í aðhaldskröfu málefnasviðsins. Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 3.052,2 milljónir króna.