„Ég þoli ekki svona. Hafið vit á að dæma hlutina rétt. Ekki taka þetta af leikmönnum og liðinu. FH átti svo sannarlega skilið eitthvað út úr þessum leik og ég ætla ekki að hlusta á neinn sem segir að FH hafi verið lakara liðið í þessum leik,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, í viðtali eftir leik en hann hafði heyrt að mark FH hefði klárlega átt að standa.
Eftir að hafa fengið á sig tvö klaufaleg mörk í fyrri hálfleik kom FH til baka og var ansi nálægt því að næla í stig gegn Þrótti sem hefur byrjað úrslitakeppnina á tveimur sigrum í röð.
Í uppbótartíma kom Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir boltanum í netið fyrir FH en rangstaða var dæmd og markið fékk ekki að standa. Dæmi nú hver fyrir sig en myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan:
Það var á 37. mínútu þegar Katla Tryggvadóttir, leikmaður Þróttar R., lét vaða langt fyrir utan teig og boltinn fór í stöngina í bakið á Aldísi Guðlaugsdóttur, markmanni FH, og í markið.
Þremur mínútum seinna skoruðu gestirnir annað mark. Katla átti of fasta sendingu sem Aldís komst inn í en missti síðan boltann úr höndunum og beint á Freyju Katrínu Þorvarðardóttur sem skoraði í autt markið. Á 48. mínútu átti Harpa Helgadóttir sendingu fyrir markið sem Alma Mathiesen stangaði í markið.
Shaina Faiena Ashouri skoraði síðan annað mark FH á 88. mínútu. Í uppbótartíma jafnaði Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir en flaggið fór á loft og rangstaða dæmd. Lokatölur á Kaplakrikavelli 3-2 sigur Þróttar R.
Þróttur R. kemst með sigrinum upp í 3. sæti deildarinnar þar sem liðið situr með 34 stig, jafnmörg stig og Breiðablik í 2. sæti. FH er hins vegar í 5. sæti með 28 stig og nú tvö töp í röð í úrslitakeppninni.
Mörkin úr leik FH og Þróttar R. má sjá hér fyrir neðan: