Skoðun

Nám fyrir alla: Jafn­ræði í menntun

Aðalheiður Marta Steindórsdóttir skrifar

Úr 17. grein lögum um grunnskóla: „Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis“. Mér er reglulega hugsað til þessarar greinar þegar ég hugsa um nemendur sem eru með fatlanir sem ekki sjást utan á þeim, og baráttu sem á sér stað í þessu kassalaga kerfi okkar.

Ef ég hugsa um einstakling sem er lamaður, þá fær hann ekki á hæfnikortið sitt: „Þarnast þjálfunar“ í hlaupi heldur er fundin leið fyrir þennan einstakling til þess að hæfniviðmið í íþróttum markist af færni hans og getu. En þegar það er komið að barni sem er með ósjáanlega fötlun þá þarf stöðugt að benda á hver er fötlun hans og minna á hvað hann getur og hvað ekki. Svo eru þessir einstaklingar flokkaðir í kassa. Við sem samfélag erum stöðugt að setja einstaklinga í hólf. Hverjir geta farið í áframhaldandi nám, hverjir eiga að „læra“ að vinna og koma sér út á vinnumarkaðinn. Það eru nokkrir sem “fá” það tækifæri að velja það sem þeir vilja læra og þeir vilja gera. Þetta er ekki spurning um hvað ég vil að barnið mitt læri, heldur hvað því langar að gera.

Ég ólst upp við það að eiga systur sem var í Heyrnleysingjaskólanum í Reykjavík, það voru ekki margir í skólanum sem fóru í áframhaldandi nám, þess þó heldur að velja hvað þau vildu gera. En foreldrar mínir voru engu að síður staðráðin í því að systir mín fengi þetta val. Systur minni langaði að læra á hljóðfæri, það var af og frá hún var heyrnarskert, hún „heyrði“ ekki tónlist en lærði á orgel hjá afa mínum og var lagviss. Hún einnig lærði nokkur grip á gítar. Það var ekki hægt að kenna Döff einstaklingum dans, því þau heyrðu ekki í tónlistinni en svo kom danskennari og kenndi afró dans í Kramhúsinu og hópur, þar á meðal systir mín, fóru í danskennslu. Systir mín var ein af þeim fyrstu Döff manneskum hóf nám á kokkabrautinni í Fjölbraut í Breiðholti, hún ætlaði að verða kokkur alveg eins og pabbi sinn og opna veitingastað. Því miður náðum við ekki að sjá þennan draum rætast því hún dó í bílslysi ári eftir að hún byrjaði í náminu sínu. En þetta var barátta hjá foreldrum mínum og þau fórnuðu heilmiklu til þess að draumur systur minnar yrði að veruleika. Þess má geta að lögin sem ég vitnaði í hér að ofan voru ekki komin í gildi þegar systir mín dó, sumarið 1990.

En þessi lög er í gildi í dag og búin að vera í gildi síðan 2009 hið minnsta. Og ég er enn að berjast fyrir því að barn sem er á grunnskólaaldri sé metið út frá getu og hæfni þess og muni ekki hafa áhrif á áframhaldandi nám barnsins. Þegar strákurinn minn á í erfiðleikum með að læra Íslendingasögurnar þá fær hann „Þarnast þjálfunar“. Hann skilur ekki afhverju hann á lesa þennan texta sem hann tengir ekki við. „Þarfnast þjálfunar“ þegar viðmiðið er “ Tjáð sig skýrt og heyrilega fyrir framan hóp af fólki” – fötlun hans er málröskun og hann er búinn að vera í talkennslu frá því hann var fjögra ára. Svar sem við fáum – hann gæti fengið stjörnumerkingar en ekki hægt að sníða þetta viðmið að honum. Og annað svar var að menntaskólarnir væru ekki að taka mið af fötlun einstaklinga en lögin segja til um: „Á framhaldsskólastigi skal veita nemendum með fötlun, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni [fatlaðs fólks], 1) og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er“. Það eiga allir rétt á því að fá stunda nám sem þeir vilja leggja fyrir sig. Og einnig stendur þetta: „Framhaldsskólar skulu leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi“. Barn á einhverfurófi á rétt á því að fá sömu menntun og aðrir og það sé tekið tillit til þeirra fötlunar. Það á ekki að setja þau í box og ákveða fyrir þau hvað þau eiga að gera í framtíðinni. Það á að aðlaga matið að þeim en ekki öfugt. Það á að aðlaga námið að þeim en ekki þau að náminu.

Ég fékk eitt sinn að heyra frá kennara að það hefði séð barn eða fullorðinn einstakling sem væri svo líkur syni mínum vera að vinna í kerrudeildinni í Hagkaup og lýsti því hvað þessi einstaklingur stæði sig vel í sínu starfi. Ég efast ekki um að hann hafi staðið sig vel, en ég varð kjaftstopp og mig blöskraði því þessi einstaklingur er kennari og sá þetta fyrir sér fyrir barnið mitt. Það var þegar búið að setja barnið mitt í box og ákveða hvað hann gæti gert og hvað ekki. Einhverfir einstaklingar og aðrir geta það sem þeir ætla sér og hafa áhuga á. Áður en allar þessar greiningar komu, var fullt af einstaklingum sem fór í gegnum menntakerfið án þess að hugsað væri eitthvað út í hvort það væri á rófinu eða ekki. Ég á örugglega fullt af vinum sem eru vel á rófinu og ég er það kannski sjálf og það er bara allt í lagi. Ég á æðislega vini og þeir eru í öllum gerðum og frábærir og það þarf ekki að flokka þá. Við aðlögum okkur að kostum og göllum hvers annars, afhverju getur skólinn það ekki líka? Greiningar áttu að auðvelda þennan hluta, ekki að draga fólk í dilka.

Höfundur er kennari, þjóðfræðingur og safnafræðingur




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×