Innlent

Á­kveða á næstu klukku­stundum hvort Þór stími til Græn­lands

Árni Sæberg skrifar
Útsýnið frá skemmtiferðaskipinu er ekki amalegt.
Útsýnið frá skemmtiferðaskipinu er ekki amalegt. SIRIUS/norðurslóðadeild danska hersins

Áhöfn varðskipsins Þórs er í viðbragðsstöðu norður af Langanesi vegna strands skemmtiferðaskips við austurströnd Grænlands.

Skemmtiferðaskipið Ocean Explorer strandaði við Alpafjörð við austurströnd Grænlands í gærmorgun. Reynt hefur verið í tvígang að koma því á flot með eigin afli í flóði. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Vísi að það verði reynt aftur í dag.

Landhelgisgæslan sé í viðbragsstöðu vegna strandsins og tilbúin til þess að sigla til Grænlands frá Langanesi, þar sem Þór er staddur. Ásgeir býst við því að svör berist frá björgunarmiðstöðinni í Nuuk, hvort aðstoð Þórs þurfi eða ekki, á næstu klukkustundum.

Komi kallið muni taka um fjörutíu klukkustundir að sigla að strandstað og því megi búast við því að Þór verði mættur á vettvang aðfararnótt föstudags.

Stemningin í skipinu góð

Í stöðuuppfærslu norðurslóðadeildar danska hersins á Facebook segir að þrátt fyrir að staðan sé erfið hafi deildin verið fullvissuð um að áhöfn og farþegar skipsins séu í góðu lagi.

Þó að mikið mæði á fólkinu um borð sé enn góð stemning í skipinu.

Þá sé eftirlitsskipið Knud Rasmussen á leið til skipsins og búist sé við því að það verði komið á vettvang á föstudagsmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×