Í sumar var greint frá því að Njarðvík, sem varð Íslandsmeistari 2022, hefði samið við þrjá erlenda leikmenn: Króatann Andelu Strize, Danann Enu Viso og Bandaríkjakonuna Tynice Martin.
Fyrir fjórum árum var sú síðastnefnda dæmd í eins árs skilboðsbundið fangelsi fyrir heimilisofbeldi.
Í frétt West Virgina Metro News kemur fram að lögregla hafi verið kölluð til sumarið 2019 vegna gruns um að Martin hafi beitt kærustu sína ofbeldi. Hún var í kjölfarið handtekin. Martin lék þá með West Virgina háskólanum.
Rannsókn á málinu leiddi í ljós að Martin fór inn á heimili kærustunnar og togaði í hár hennar. Martin og önnur kona ýttu kærustunni síðan á skjólhurð áður en þær lömdu hana, hrintu og tóku hálstaki.
Í nóvember 2019 fékk Martin eins árs skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir líkamsárás. Hún þurfti að gegna fimmtíu klukkustunda samfélagsþjónustu.
Los Angeles Sparks valdi Martin með 34. valrétti í nýliðavali WNBA 2020. Hún hefur einnig leikið í Úkraínu, Svíþjóð, Kósovó og Finnlandi þar sem hún var síðasta vetur.