Formúla 1

„Ekki ná­lægt því að vera sá Michael sem við öll þekktum“

Aron Guðmundsson skrifar
Formúlu 1 goðsögnin og sjöfaldi heimsmeistarinn Michael Schumacher
Formúlu 1 goðsögnin og sjöfaldi heimsmeistarinn Michael Schumacher Vísir/Getty

Johnny Her­bert, náinn vinur og fyrrum liðs­fé­lagi For­múlu 1 goð­sagnarinnar Michael Schumacher, segir aldrei neinar já­kvæðar fréttir berast af líðan þýsku goð­sagnarinnar sem lenti í al­var­legu skíða­slysi árið 2013 og lítið hefur spurst til síðan þá. Á­standið hafi skiljan­lega tekið sinn toll á yngri bróðir Michaels, Ralf Schumacher.

Undan­farið hefur mátt greina það í fjöl­miðlum ytra að fyrrum sam­starfs­menn og nánir vinir Michaels hafa verið að tjá sig um hann og ýja að því hver staðan sé í raun og veru hjá þessari goð­sögn í sögu For­múlu 1 mótaraðarinnar og í­þrótta­heimsins.

Lítið hefur verið gefið upp hver staða Michaels í raun og veru sé eftir þetta hörmu­lega skíða­slys árið 2013. Fjöl­skylda hans hefur virt þá ósk Michaels að halda einka­lífi fjöl­skyldunnar fjarri kast­ljósi fjöl­miðla, regla sem hann hafði sjálfur í heiðri á meðan á öku­manns­ferli hans í For­múlu 1 stóð.

Á dögunum birtist við­tal við vin Schumacher­s, fyrrum fjöl­miðla­manninn Roger Benoit í sviss­neskum miðli og þar sagði Benoit stöðu Schumacher­s von­lausa.

Her­bert, sem var liðsfélagi Michaels hjá Formúlu 1 liði Benetton á sínum tíma, fékk veður af þessu við­tali sem Benoit fór í og endur­ómar það sem hann sagði.

„Það eru í raun ekki nýjar fréttir. Það sem við vitum núna er að við fáum aldrei já­kvæðar fréttir,“ segir Her­bert um stöðuna á fyrrum liðs­fé­laga sínum. „Það er það hræði­lega við þetta, hann er ekki ná­lægt því að vera sá Michael sem við öll þekktum. Það er mjög sorg­legt.“

Herbert fagnar sigri með Schumacher í Spænska kappakstrinum árið 1995.Vísir/Getty

Her­bert segir á­stand Michaels skiljan­lega hafa haft mikil á­hrif á yngri bróðir hans Ralf Schumacher, sem einnig á að baki feril í For­múlu 1. Her­bert segir Ralf hafa þroskast mun hraðar í kjöl­far þessa al­var­lega slyss sem bróðir hans lenti í.

„Hann hefur breyst tölu­vert og per­sónu­leiki hans er mjög ó­líkur þeim sem við sáum þegar að hann var öku­maður í For­múlu 1,“ segir Her­bert sem hefur unnið með Ralf í kringum út­sendingar Sky í Þýska­landi í tengslum við For­múlu 1.

Ralf SchumacherVísir/Getty

„Hann er góð manneskja,“ segir Her­berg um Ralf. „En hefur fengið aukna á­byrgð á sínar herðar eftir það sem gerðist fyrir eldri bróður hans og hefur þurft að takast á við ýmis­legt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×