Erlent

Fyrst hvarf utan­ríkis­ráð­herrann og nú varnar­mála­ráð­herrann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það þykir áhyggjuefni að báðir ráðherrar séu horfnir af sjónarsviðinu, skýringalaust.
Það þykir áhyggjuefni að báðir ráðherrar séu horfnir af sjónarsviðinu, skýringalaust. epa/How Hwee Young

Bandarísk stjórnvöld telja Li Shangfu, varnarmálaráðherra Kína, sæta rannsókn og vera haldið í stofufangelsi. Li sást síðast þegar hann flutti ræðu á friðar- og öryggisráðstefnu Kína og Afríkuríkjanna þann 29. ágúst síðastliðinn.

Samkvæmt Reuters afboðaði Li fund með yfirmönnum varnarmála í Víetnam í síðustu viku, skömmu áður en fundurinn átti að fara fram. Embættismenn í Víetnam sögðu að stjórnvöld í Pekíng hefðu frestað hinum árlega fundi ríkjanna.

Þetta er langt í frá í fyrsta sinn sem háttsettur embættismaður í Kína hverfur skyndilega af sjónarsviðinu.

Rahm Emanuel, sendiherra Bandaríkjanna í Japan, er meðal þeirra sem hefur tjáð sig um málið og hefur líkt ríkisstjórn leiðtogans Xi Jinping við skáldsögu Agötu Christie; Eftir stóð enginn (e. And Then There Were None).

Hvarf Li kemur á hæla þess að utanríkisráðherranum Qin Gang var skyndilega skipt út í júlí. Gang hafði þá ekki sést í nokkrar vikur og hefur ekki sést síðan.

Þá voru tveir háttsettir hershöfðingjar skotflaugadeildar hersins látnir fjúka snemma í ágúst en annar þeirra, Li Yuchao, hafði ekki sést í nokkrar vikur né var brotthvarf hans útskýrt.

Xi er sagður hafa staðið fyrir umfangsmiklum hreinsunum meðal valdamanna Kína. Talað hefur verið um aðgerðir gegn spillingu en sérfræðingar segja þeim einnig hafa verið beint gegn pólitískum andstæðinum.

Nú er svo komið að allir hæstsettu embættismenn landsins eru bandamenn Xi.

Bill Bishop, sérfræðingur í málefnum Kína, bendir meðal annars á að það verði að teljast afa ótrúverðugt að ætla að halda því fram að spilling þrífist enn á toppnum eftir áratug Xi í embætti. Drew Thompson við Lee Kuan Yew School of Public Policy segir Li og Qin hafa verið gluggi Vesturlanda inn í ógegnsætt kerfi og að hvarf þeirra sé áhyggjuefni.

Þá sé það til marks um innhverfu Kína að þarlend stjórnvöld sjái enga ástæðu til að gefa skýringu á því að svo háttsettir menn séu allt í einu horfnir af sjónarsviðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×