Skoðun

Gangandi berg­máls­hellar

Erna Mist skrifar

Við lifum í heimi þar sem flestir geta ekki rökstutt staðhæfingarnar sem þeir láta frá sér því þeir vita ekki hvaðan þær koma. Þannig virka bergmálshellar; þeir mata mann einhverjum upplýsingum og síðan staðfestingum á þeim upplýsingum og síðan staðfestingum á því að þessar staðfestingar séu nógu áreiðanlegar til að maður þurfi ekki að velta þeim fyrir sér. Þessir algóritmar eru beinlínis hannaðir til að útrýma gagnrýnni hugsun, og án gagnrýnnar hugsunar erum við ekki einstaklingar heldur skrúfur í vél sem við köllum lýðræðislegt samfélag af einskærri óskhyggju, þegar við búum í raun við tækniræði sem mun á endanum þróast í stafrænt alræði. 

Þess vegna á maður ekki að taka mark á fólki með óhaggandi skoðanir og fastmótuð viðhorf, því þeir sem bera svarthvíta heimsmynd í höfði sér eru ekki menn heldur gangandi bergmálshellar. Vinstrimenn sem halda að hægri menn séu vondir eru gangandi bergmálshellar. Hægrimenn sem halda að vinstrimenn séu vitlausir eru gangandi bergmálshellar. Eldri kynslóðir sem halda að yngri kynslóðir eigi sér enginn gildi eru gangandi bergmálshellar. Frjálslyndir vinstrimenn sem halda að kristilegir demókratar séu rasistar eru gangandi bergmálshellar. Góða fólkið sem heldur að aðrir séu vonda fólkið eru gangandi bergmálshellar. 

Því dýpra sem maður flytur inn í eigin bergmálshelli því ólíklegri er maður til að geta átt samræður við einhvern annan en sjálfan sig, og því sannfærðari sem maður er um eigin sjónarmið því líklegri er maður til að afgreiða skoðanir sem stangast á við manns eigin sem rangar skoðanir og fólkið sem leggur þær fram sem vont fólk. Því þegar gagnrýnin hugsun er horfin úr heilanum verður svo erfitt að ímynda sér að heimurinn sé flóknari og margvíðari en maður heldur að hann sé. Þess vegna verður maður að efast eigin um sjónarmið, efast um eigin sannfæringu. Án efans er maður fangi hugmyndafræðinnar, fastmótaður eftir stafrænni uppskrift að fyrirsjáanlegum persónuleika.

Höfundur er listmálari.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×