„Ég var úti að keppa fyrir fimm vikum og mig langaði að sjá hvar ég myndi enda og hvernig líkaminn yrði,“ segir þessi ótrúlegasta hlaupakona landsins sem hljóp 260 kílómetra í ágúst og nú 167,5 kílómetra í Heiðmörk. Horfa má á viðtal við Mari neðst í fréttinni.
„Ég vissi alltaf að þetta væri heimskulegt. Hefðu kannski liðið tveir mánuðir þá hefði þetta gengið, en einn mánuður er bara ekki nóg. Ég byrjaði að finna fyrir verk í hnjánum í gærkvöldi og þar spilar veðrið pottþétt inn í.“
Mari segist aldrei raunverulega hafa tekið ákvörðun um að hætta í hlaupinu nú. Hún hafi hins vegar níðst á hnjánum síðan í gærkvöldi og ekki séð tilganginn í því að halda því áfram.
Ekki búin að vera ánægð með árangurinn
Þannig að þú ákvaðst að vera skynsöm hérna í dag?
„Já! Vá. Þetta er rétta orðið,“ segir Mari hlæjandi sem kveðst samt alltaf vilja meira. Hún sé þess vegna leið.
Hvað tekur við núna hjá þér?
„Þarf ég ekki að fara að eignast börn með þessum silfurref eða?“ segir Mari enn hlæjandi og bætir við:
„Ég er ekki búin að vera ánægð með árangurinn minn undanfarið. Þannig að þetta er smá svona, kannski punkturinn yfir I-ið og hvað svo? Er ég að fara að leita að næstu keppni í vor eða er ég raunverulega að fara að hugsa um barneignir?“
Það er það sem þú ert að íhuga núna?
„Það er allt í lagi að taka sér ársfrí. Ég get alveg hlaupið um leið og ég er búin að punga þessu út. Það eru engin vandamál.“