Skoðun

Heilinn á konum er helmingi minni

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Eitt ár er liðið frá morði íranskra stjórnvalda á Mahsa Amini, írönsku stúlkunni sem lést í haldi hinnar alræmdu írönsku siðgæðislögreglu. Amini hafði verið handtekin á þeim grundvelli að hún hefði ekki borið skyldubundinn höfuðklút kvenna á viðeigandi máta. Dauði Amini leiddi til mótmælaöldu í Íran sem breiddist út til fjölmargra landa.

Í liðinni viku sótti ég stuðningsfund í Brussel vegna þessa tímamóta. Þúsundir Írana fylktu liði á götum borgarinnar og kröfðust lýðveldis sem byggði á lýðræði. Frá því íslömsku lýðveldi var komið á í Íran undir stjórn klerkaveldis árið 1979 hefur frelsi fólks verið skert gríðarlega, einkum kvenna. Þar búa konur við mikið ofríki, ofbeldi og kúgun. Ein írönsku kvennanna sem ég fundaði með í Brussel benti mér á að það væri komið nóg af því að litlar íranska stelpur væru aldar upp við að tvær konur jafngiltu einum manni þar sem heilinn á konum væri svo lítill. Þannig þyrfti t.d. tvö kvenkyns vitni á móti einu karlkyns.

Á Íslandi er mesta kynjajafnrétti í heimi og svona tal hljómar sem lélegur brandari í okkar eyrum. Ofbeldi gegn konum er hins vegar eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heimi. Við förum heldur ekki varhluta af því hér. Ofbeldið er margs konar; konum er nauðgað, þær eru barðar, seldar, brenndar og vanvirtar. Þær eru myrtar í nafni heiðurs. Þær eru réttindalausar og kerfisbundið haldið ómenntuðum. Og þær eru handteknar og myrtar fyrir að hylja ekki ökkla eða hár sitt. En ofbeldið og kúgunin sem konur verða fyrir alls staðar í heiminum er á sumum svæðum útbreidd og viðurkennd siðvenja, jafnvel bundin í lög. Það er er sorgleg staðreynd og okkur mjög framandi.

Það er siðferðileg skylda okkar að styðja við mannréttindabaráttu Írana, að styðja í orðum og gjörðum við ofsóttar og kúgaðar systur okkar um heim allan í minnkandi veröld. Að berjast fyrir því að íranskar konur geti, bókstaflega, um frjálst höfuð strokið.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×