Handbolti

„Erum ekki ánægðir með frammistöðuna þótt við séum ánægðir með stigin“

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Gunnar Magnússon var sáttur með sigurinn
Gunnar Magnússon var sáttur með sigurinn Vísir/Anton Brink

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var sáttur með seigluna í sínum mönnum er þeir unnu Fram með tveimur mörkum 30-32 í Olís-deild handbolta í kvöld. Afturelding var undir bróðurpart leiksins en steig upp á síðustu mínútum leiksins og uppskar sigurinn.

„Þetta eru mikilvægir karaktersigrar. Við vorum í basli framan af og alls ekki góðir í fjörutíu mínútur. En þetta sýnir hversu langt við erum komnir, við höfum karakter og liðsheild í að snúa þessu við. Við vorum góðir síðustu tuttugu og það dugði. Þetta er seiglusigur.“

Eins og fram hefur komið var Afturelding undir lengst af í leiknum en náði að þjappa sér betur saman og stíga upp á lokamínútunum. 

„Mér fannst við slakir og auðvitað Fram góðir, ég tek ekkert af þeim. Mér fannst við ekki ná almennilegum takti hvorki í vörn né sókn í fjörutíu mínútur og við vorum frá okkar besta. Hérna áður fyrr höfðum við ekki snúið þessu við, það sýnir hversu langt við erum komnir, að geta tekið svona leik og klárað hann þrátt fyrir að vera í basli svona lengi. Menn þjöppuðu sér saman og misstu ekki trúna og stigu upp síðustu tuttugu og sigldu þessu heim.“

Gunnar segir strákana sátta með sigurinn en ekki með frammistöðuna og vill að þeir spili betur í næsta leik. 

„Við þurfum að spila betur. Við vorum ekki ánægðir með spilamennskuna. Mótið er að byrja og núna snýst þetta um að safna stigum en við þurfum að bæta okkar leik. Við erum ekkert ánægðir með frammistöðuna þótt við séum ánægðir með stigin.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×