Vilhjálmur skrifar harðorðan pistil á Facebook-síðu sína þar sem hann segir að ekki sé lengur hægt að horfa upp á afleiðingar af okurvöxtum, verðtryggingu og fákeppni sem bitni ætíð á neytendum og heimilum þessa lands. „Íslenskir neytendur og heimili þurfa að fá svör frá virtum og erlendum óháðum aðilum hvort íslenska krónan sé sú sem veldur þessum þjáningum sem neytendur og heimili hafa þurft að þola nú um áratugaskeið.“
Þetta er til marks um viðhorfsbreytingu hjá Vilhjálmi en hann hefur fram til þessa verið stuðningsmaður krónunnar. Það er búið.
„Ég skal fúslega viðurkenna það að ég hef verið talsmaður íslensku krónunnar en nú hef ég skipt um skoðun enda kominn á endastöð með að verja krónuna enda er margt sem bendir til þess að þessi örmynt okkar eigi stóran þátt í þessum miklu efnahagslegu sveiflum. Sveiflum sem ætíð bitna á hinum almenna neytanda og heimilunum í formi okurvaxta, verðtryggingar og fákeppni á öllum sviðum.“
Vilhjálmur segir að nú sé komið á endastöð með krónuna sem kosti neytendur og heimilin um eða yfir 200 milljarða árlega.
„Á Íslandi eru margir gjaldmiðlar í gangi, mörgum stórfyrirtækjum dettur ekki til hugar að gera upp í krónum og gera því upp í erlendum gjaldmiðlum og hafa jú aðgengi að erlendu lánsfé á mun betri kjörum. Síðan er það verðtryggða krónan sem er jú einn sterkast gjaldmiðill í heimi en hann gagnast þeim efnameiri og fjármálakerfinu. Síðan er það íslenska krónan sem almenningi er gert að nota eingöngu og við þekkjum hvaða afleiðingar hún getur haft á neytendur og heimili.“