Fótbolti

Svava á að fylla skarð Cloé hjá Benfica

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Svava Rós Guðmundsdóttir með búning Benfica. Henni var úthlutað treyju númer 36 hjá félaginu.
Svava Rós Guðmundsdóttir með búning Benfica. Henni var úthlutað treyju númer 36 hjá félaginu. benfica

Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í fótbolta, er gengin í raðir Portúgalsmeistara Benfica.

Hún kemur til Benfica frá Gotham í Bandaríkjunum þar sem hún fékk sárafá tækifæri. Síðasti leikur Svövu fyrir Gotham var 2. júlí.

Cloé Lacasse, markahæsti leikmaður Benfica undanfarin fjögur ár, fór til Arsenal í sumar og Svövu er væntanlega ætlað að fylla skarð hennar. Cloé er fyrrverandi leikmaður ÍBV.

Svava, sem er 27 ára, hefur leikið sem atvinnumaður undanfarin fimm ár, með Røa og Brann í Noregi, Kristianstad í Svíþjóð, Bordeaux í Frakklandi, Gotham í Bandaríkjunum og nú Benfica í Portúgal.

Benfica vann 1-3 sigur á Torrense í 1. umferð portúgölsku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Næsti leikur liðsins er gegn Martimo 1. október.

Svava og stöllur hennar í íslenska landsliðinu mæta Wales í Þjóðadeildinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×