Þetta kemur fram í tilkynningu sem barst kauphöll eftir lokun markaða í dag.
Íbúðirnar 55 eru samtals 5.905 fermetrar en gert er ráð fyrir því að þær verði afhentar í lok árs. Ákveði SKEL að nýta sér kaupréttinn samkvæmt samkomulaginu getur félagið keypt 35 íbúðir til viðbótar, sem yrðu afhentar í lok árs 2024. Uppgefið verð samkvæmt kaupréttarsamningnum eru rúmir 3,2 milljarðar króna.
Hluti kaupverðs verður greiddur með afhendingu hlutafjár og hluthafalána í Reir þróun ehf. á bókfærðu verði. Bókfært virði hlutafjár og fjárhæð hluthafalána SKEL í einkahlutafélaginu í lok júní nam rúmum 1,7 milljörðum króna. Að öðru leyti verður kaupverðið fjármagnað með bankaláni og reiðufé. Komi til nýtingar kaupréttarins verður SKEL búið að afhenda alla hluti félagsins í Reir þróun.
„SKEL hefur reynslu og þekkingu á fasteignamarkaði, en 17% eigna félagsins eru í fasteignum eða félögum sem reka og þróa fasteignir. SKEL telur að gerjun sé framundan á fasteignamarkaði, m.a. vegna breytinga hjá stórum leigufélögum. Framboð hefur ekki svarað eftirspurn á undanförnum árum og eftirspurn vex ár frá ári. Íbúðirnar við Stefnisvog 2 verða settar í langtímaleigu,“ segir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL, í fyrrgreindri tilkynningu.