Fótbolti

„Ég hoppaði af gleði“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bryndís Arna með boltann í leik með Val.
Bryndís Arna með boltann í leik með Val. Vísir/Vilhelm

Bryndís Arna Níelsdóttir var í gærkvöldi kölluð inn í landsliðshóp kvenna í knattspyrnu fyrir leik liðsins gegn Þýskalandi á þriðjudag. Hún hoppaði af gleði þegar kallið kom.

Bryndís Arna Níelsdóttir hlaut ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans Þorsteins Halldórssonar þegar landsliðshópurinn var kynntur fyrir leikina gegn Wales og Þýskalandi. Sagði Þorsteinn hana ekki tilbúna í verkefni með A-landsliðinu. Vakti það töluverða athygli því Bryndís varð markahæst í deildakeppni Bestu deildar kvenna í sumar og skoraði þar 14 mörk.

Bryndís Arna spilaði hins vegar með U-23 ára liði Íslands í gær og skoraði í sigri þess gegn Marokkó. Eftir leikinn var Bryndís síðan kölluð inn í A-landsliðshópinn vegna meiðsla Sveindísar Jane Jónsdóttur.

„Það var geggjað að fá kallið. Ég hoppaði af gleði,“ sagði Bryndís Arna þegar Svava Kristín íþróttafréttakona heyrði í henni hljóðið í morgun. Bryndís Arna var þá stödd í París á leið sinni til Þýskalands þar sem hún hittir landsliðshópinn.

„Ég vissi ekkert að það væri einhver tæpur þannig að ég var bara að undirbúa mig fyrir verkefnið með U23-ára liðinu. Ég var með fullan fókus þar og þetta kom skemmtilega á óvart.“

Ísland mætir Þýskalandi í Þjóðadeildinni á þriðjudaginn en liðið vann góðan 1-0 sigur á Wales í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×