Enski boltinn

Skilur ekki af hverju Ten Hag lét Ronaldo fara: „Sköllóttu gaurarnir eru flóknir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag ræðir við Cristiano Ronaldo.
Erik ten Hag ræðir við Cristiano Ronaldo. getty/Steve Bardens

Arturo Vidal botnar ekkert í þeirri ákvörðun Eriks ten Hag að bola Cristiano Ronaldo út hjá Manchester United.

Eftir byrjunina á síðasta tímabili tók Ten Hag Ronaldo út úr byrjunarliði United. Portúgalinn var ekki sáttur við þá ákvörðun Hollendingsins og lét gamminn geysa í frægu viðtali við Piers Morgan.

Eftir heimsmeistaramótið í Katar undir lok síðasta árs fór Ronaldo svo til Al Nassr í Sádi-Arabíu. Síðan hafa fjölmargir aðrir leikmenn fetað í fótspor hans og gengið í raðir sádi-arabískra liða.

Vidal, sem leikur nú með Athletico Paranaense í Síle eftir farsælan feril í Evrópu með liðum á borð við Juventus, Bayern München og Barcelona, skilur ekki af hverju Ronaldo var bolað út hjá United.

„Þjálfarinn átti slæma inkomu hjá United. Hvernig tekurðu Cristiano Ronaldo út?“ sagði Vidal og tengdi ákvörðun Ten Hags svo við hárleysi hans.

„Svona eru þessir gaurar. Hann var aðalmarkaskorarinn og hann losaði sig við hann. Sköllóttu gaurarnir eru flóknir.“

Ronaldo sneri aftur til United 2021 og var markahæsti leikmaður liðsins á sínu fyrsta tímabili hjá því. Hann náði sér hins vegar ekki á strik á því næsta og skoraði aðeins þrjú mörk áður en hann hélt til Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×