Víkingum hefur gengið vel að byggja upp stemmningu fyrir leiki sína í sumar og það á ekki bara við heimaleikina.
Þeir hafa líka kallað saman í bílastæðapartý á útileikjum sínum eins og þeir gerðu fyrir mikilvægan leik á móti Val á Hlíðarenda í haust. Þeir hittast í nágrenni leikvangsins og ganga síðan í skrúðgöngu á völlinn.
Víkingar ætla að endurtaka leikinn fyrir Blikaleikinn í kvöld.
Þeir þurfa kannski ekki á stigunum að halda en geta jafnað stigametið og haldið áfram yfirtökum sínum í sálfræðistríðinu á móti Blikum. Víkingar hafa náð í fjögur stig og skorað sjö mörk í tveimur deildarleikjum á móti Blikum í sumar en þeir hafa náð í 22 stigum meira en fráfarandi meistarar Breiðabliks á þessu tímabili.
Víkingar ætla að bjóða í bílastæðapartý á bílaplaninu við Sporthúsið en ætlunin er að hittast klukkan 17.00.
Boðið verður upp á fría drykki, tónlist og góða stemmningu. Víkingar kalla þetta Forskott sem er bein vísun í „Tailgate“ þeirra Bandaríkjamanna.
Klukkan 18.15 verður síðan skrúðganga á völlinn en leikurinn hefst síðan klukkan 19.15.
Leikur Breiðabliks og Víkings verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.00.