Íslenski boltinn

Hallgrímur Mar búinn að jafna stoðsendingametið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallgrímur Mar Steingrímsson hefur þegar gefið þrettán stoðsendingar í Bestu deildinni í sumar.
Hallgrímur Mar Steingrímsson hefur þegar gefið þrettán stoðsendingar í Bestu deildinni í sumar. Vísir/Hulda Margrét

KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði í gær stoðsendingametið á einu tímabili í efstu deild þegar hann gaf sína þrettándu stoðsendingu í Bestu deildinni í sumar.

Hallgrímur skoraði eitt mark sjálfur í leiknum en lagði líka upp fjórða mark KA-manna í leiknum sem Sveinn Margeir Hauksson skoraði.

Hallgrímur er nú kominn með þrettán stoðsendingar í deildinni í sumar sem er metjöfnun.

Þrír leikmenn höfðu áður náð að gefa þrettán stoðsendingar á einu tímabili síðan byrjað var að taka saman stoðsendingar sumarið 1992.

Tryggvi Guðmundsson var sá fyrsti en hann gaf þrettán stoðsendingar í 21 leik með FH sumarið 2008 og skoraði sjálfur tólf mörk að auki.

Atli Guðnason jafnaði metið sumarið 2012 þegar hann var með þrettán stoðsendingar og tólf mörk í 22 leikjum. Atli var bæði markakóngur og stoðsendingakóngur það sumar.

Adam Ægir Pálsson bættist síðan í hópinn í fyrra þegar hann gaf þrettán stoðsendingar og skoraði sjö mörk í 24 leikjum með Keflavík.

Hallgrímur er búinn að spila 24 leiki með KA í sumar og er í þeim með sex mörk og þrettán stoðsendingar. Hann fær nú þrjá leiki til að eignast metið einn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×