Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Fjölnir 81-71 | Iðnaðarsigur í Grindavík Siggeir Ævarsson skrifar 26. september 2023 22:31 Hekla Eik Nökkvadóttir setti 16 stig í kvöld og bætti við átta stoðsendingum. VÍSIR/HULDA MARGRÉT Grindavíkurkonur unnu góðan tíu stiga sigur er liðið tók á móti Fjölni í fyrstu umferð Subway-deildar kvenna í körfubolta í kvöld, 81-71. Sigur Grindavíkurkvenna var aldrei í mikilli hættu en þær þurftu þó að hafa töluvert fyrir honum. Haustbragurinn frægi sveif yfir vötnum upphafi leiks í Grindavík í kvöld. Það var þó enginn haustbragur yfir HS-orku höllinni nýju sem Grindvíkingar hafa loksins tekið í notkun eftir gagngerar endurbætur á hljóðvistarveggjum hússins en það er greinilegt að þar var fagmaður með rúlluna á lofti. Grindavíkurkonur virtust ætla að hlaupa í burtu með leikinn um miðjan annan leikhluta en Fjölniskonur voru þó ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát. Með Raquel De Lime Laneiro í broddi fylkingar þar sem hún skoraði sjö stig í röð án svars hlóðu þær í áhlaup og komust yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum. Eftir það var leikurinn í ágætu jafnvægi þar sem Grindvíkingar voru skrefinu á undan án þess að ná að gera út um leikinn. Fjölnir sótti mikið af körfum í teiginn og virtust Grindvíkingar oft og tíðum ekki vera alveg með allar varnafærslur á hreinu. Þær sigldu þó sigrinum heim að lokum þar sem Hulda Björk Ólafsdóttir fór á kostum og sallaði niður stigum. Dani Rodriguez var fjarri góðu gamni í kvöld vegna meiðsla en Grindavík fékk gott framlag úr mörgum áttum en fjórir leikmenn fóru í tveggja stiga tölu í stigaskori. Á sama tíma voru aðeins tveir leikmenn Fjölnis sem báru sóknarleik þeirra á herðum sér, en þær Raquel De Lime Laneiro og Korinne Campbell skoruðu samanlagt 55 af 71 stigi Fjölnis. Af hverju vann Grindavík? Grindvíkingar tóku þetta á breiddinni og reynslunni í kvöld. Þrátt fyrir að lykilleikmenn Grindvíkinga séu flestir enn ungir að árum er íslenski kjarni Fjölnis einfaldlega á táningsaldri og Grindavík var of stór biti fyrir þær í kvöld. Hverjar stóðu upp úr? Hulda Björk Ólafsdóttir átti frábæran leik sóknarlega fyrir Grindavík. Skoraði 22 stig og hitti afar vel. Þá stýrði Hekla Eik Nökkvadóttir sóknarleik þeirra af myndugleik í fjarveru Dani, skoraði 16 stig og bætti við átta stoðsendingum og fjórum fráköstum. Raquel De Lime Laneiro bar sóknarleik Fjölnis uppi í kvöld og skoraði 25 stig. Hún henti í þrefalda tvennu í kvöld en hún tók ellefu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Þá var Korinne Campbell drjúg, skoraði 20 stig og tók ellefu fráköst. Grindvíkingum gekk illa að hemja hana í teignum þrátt fyrir að fá að berja töluvert á henni. Hvað gekk illa? Fjölniskonur hittu ekki á góðan skotdag fyrir utan. Aðeins sex þristar niður í 28 tilraunum, og þar af átti Laneiro fjóra þeirra. Hvað gerist næst? Mótið er ungt en Grindvíkingar byrja á sigri á heimavelli. Þær sækja nýliða Snæfells heim í Hólminn 3. október en Fjölnir tekur á móti nýliðum Þórs frá Akureyri sama kvöld. Hallgrímur: „Við vorum kannski ekki bara alveg á okkar skotdegi fyrir utan“ Hallgrímur tók við Fjölni í vor. Við bíðum spennt eftir að ljósmyndari Vísis nái mynd af honum í Fjölnisbúning!Fjölnir Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Fjölnis, var nokkuð brattur í leikslok þrátt fyrir tap. Hans konur sýndu góðar rispur á köflum og hann tók undir blaðamanns að frammistaðan hefði alls ekki verið slæm þrátt fyrir að uppskeran hefði verið tap. „Alls ekki. Margt sem við tökum úr þessu sem við byggjum ofan á. Síðan eru þó nokkrir hlutir sem við þurfum að bæta okkur í. Við förum bara yfir það á næstu æfingum.“ Fjölnir sótti mörg stig í teiginn í kvöld. Hallgrímur sagði að hann hefði ekki endilega lagt upp með að skora lungan úr stigunum þar en vissulega væru hans konur öflugar í teignum. „Það eru auðvitað plúsar og mínusar. Þær eru fljótar á fótunum og hlaupa völlinn vel. Við erum stórar og sterkar og með góða skotmenn. Við vorum kannski ekki bara alveg á okkar skotdegi fyrir utan. En ég er alveg sammála. Við gerðum góða hluti inni í teig.“ Fjölnir er aðeins með tvo útlendinga meðan að mörg lið eru komin með þrjá, jafnvel fjóra. Hallgrímur sló þá hugmynd að fjölga útlendingum í liði Fjölnis rakleiðis út af borðinu. „Nei við erum ekki að fara að bæta við. Við erum með bráðefnilegar stelpur eins og þú sást. Ég hleypti þeim nú ekki öllum inn á en það voru margar ungar sem fengu tækifæri í dag. Stórt hrós á þær að bogna ekki undan þessu sviðsljósi og þessari stemmingu sem var hér í dag. Þannig að ég er bara mjög stoltur af öllum þeim sem komu inn á hjá okkur í dag.“ Það var frábær mæting í Grindavík í kvöld. Hallgrímur hrósaði Grindvíkingum sérstaklega fyrir aðstöðuna í HS-orku höllinni. „Mér finnst þetta hrikalega flott. Geggjaður. Sérstaklega eftir að þeir máluðu þessa hljóðveggi, þá er þetta allt annað. Ég held að það verði bara geggjuð stemming hjá Grindavík í vetur. Til hamingju Grindavík segi ég nú bara!“ Hallgrímur kvaðst spenntur fyrir komandi tímabili, það væri ekki annað hægt. Þrátt fyrir að það séu 89 dagar í jólin ætlar hann að halda upp á þau alla daga næstu níu mánuði. „Ég veit ekki af hverju það ætti ekki að vera geggjuð stemming. Við erum með tíu geggjuð lið. Þetta eru bara jólin, jólin verða bara næstu níu mánuði!“ Hulda Björk: „Það er alveg töggur í okkur“ Hulda á fleygiferð með boltann í leik með Grindavík í fyrraVísir/Vilhelm Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, fór fyrir sínum konum í kvöld. Hún hitti afar vel og það var ekki annað hægt en að spyrja hana hvernig henni liði að spila loks í nýja salnum. „Mér líður bara mjög vel og ég er bara mjög spennt að spila hérna í vetur!“ Hulda tók í sama streng og þjálfari hennar, Þorleifur Ólafsson. Grindvíkingar þyrftu að frákasta betur í næstu leikjum. Frammistaðan þar hefði í raun komið í veg fyrir að þær næðu að gera út um leikinn fyrr en raun bar vitni. „Við vorum bara ekki að stíga nógu vel út. Við vorum að láta þær ýta okkur svolítið út úr því sem við viljum gera. Að stíga út og taka fráköstin, það er það sem varð okkur að falli í þessum leik.“ Hún sagðist þó ekki hafa neinar áhyggjur af að fráköstin yrðu vandamál í vetur. „Nei alls ekki. Það er alveg töggur í okkur. Ég er bara spennt fyrir vetrinum og hef fulla trú á þessu liði.“ Þorleifur talaði um fyrir leik að markmiðið væri að ná í eitt af efstu fjórum sætunum í vetur. Hulda sagði að það væri klárlega í kortunum. „Ég er bara mjög bjartsýn, eins og ég sagði, ég er bara mjög spennt fyrir vetrinum!“ Subway-deild kvenna UMF Grindavík Fjölnir
Grindavíkurkonur unnu góðan tíu stiga sigur er liðið tók á móti Fjölni í fyrstu umferð Subway-deildar kvenna í körfubolta í kvöld, 81-71. Sigur Grindavíkurkvenna var aldrei í mikilli hættu en þær þurftu þó að hafa töluvert fyrir honum. Haustbragurinn frægi sveif yfir vötnum upphafi leiks í Grindavík í kvöld. Það var þó enginn haustbragur yfir HS-orku höllinni nýju sem Grindvíkingar hafa loksins tekið í notkun eftir gagngerar endurbætur á hljóðvistarveggjum hússins en það er greinilegt að þar var fagmaður með rúlluna á lofti. Grindavíkurkonur virtust ætla að hlaupa í burtu með leikinn um miðjan annan leikhluta en Fjölniskonur voru þó ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát. Með Raquel De Lime Laneiro í broddi fylkingar þar sem hún skoraði sjö stig í röð án svars hlóðu þær í áhlaup og komust yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum. Eftir það var leikurinn í ágætu jafnvægi þar sem Grindvíkingar voru skrefinu á undan án þess að ná að gera út um leikinn. Fjölnir sótti mikið af körfum í teiginn og virtust Grindvíkingar oft og tíðum ekki vera alveg með allar varnafærslur á hreinu. Þær sigldu þó sigrinum heim að lokum þar sem Hulda Björk Ólafsdóttir fór á kostum og sallaði niður stigum. Dani Rodriguez var fjarri góðu gamni í kvöld vegna meiðsla en Grindavík fékk gott framlag úr mörgum áttum en fjórir leikmenn fóru í tveggja stiga tölu í stigaskori. Á sama tíma voru aðeins tveir leikmenn Fjölnis sem báru sóknarleik þeirra á herðum sér, en þær Raquel De Lime Laneiro og Korinne Campbell skoruðu samanlagt 55 af 71 stigi Fjölnis. Af hverju vann Grindavík? Grindvíkingar tóku þetta á breiddinni og reynslunni í kvöld. Þrátt fyrir að lykilleikmenn Grindvíkinga séu flestir enn ungir að árum er íslenski kjarni Fjölnis einfaldlega á táningsaldri og Grindavík var of stór biti fyrir þær í kvöld. Hverjar stóðu upp úr? Hulda Björk Ólafsdóttir átti frábæran leik sóknarlega fyrir Grindavík. Skoraði 22 stig og hitti afar vel. Þá stýrði Hekla Eik Nökkvadóttir sóknarleik þeirra af myndugleik í fjarveru Dani, skoraði 16 stig og bætti við átta stoðsendingum og fjórum fráköstum. Raquel De Lime Laneiro bar sóknarleik Fjölnis uppi í kvöld og skoraði 25 stig. Hún henti í þrefalda tvennu í kvöld en hún tók ellefu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Þá var Korinne Campbell drjúg, skoraði 20 stig og tók ellefu fráköst. Grindvíkingum gekk illa að hemja hana í teignum þrátt fyrir að fá að berja töluvert á henni. Hvað gekk illa? Fjölniskonur hittu ekki á góðan skotdag fyrir utan. Aðeins sex þristar niður í 28 tilraunum, og þar af átti Laneiro fjóra þeirra. Hvað gerist næst? Mótið er ungt en Grindvíkingar byrja á sigri á heimavelli. Þær sækja nýliða Snæfells heim í Hólminn 3. október en Fjölnir tekur á móti nýliðum Þórs frá Akureyri sama kvöld. Hallgrímur: „Við vorum kannski ekki bara alveg á okkar skotdegi fyrir utan“ Hallgrímur tók við Fjölni í vor. Við bíðum spennt eftir að ljósmyndari Vísis nái mynd af honum í Fjölnisbúning!Fjölnir Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Fjölnis, var nokkuð brattur í leikslok þrátt fyrir tap. Hans konur sýndu góðar rispur á köflum og hann tók undir blaðamanns að frammistaðan hefði alls ekki verið slæm þrátt fyrir að uppskeran hefði verið tap. „Alls ekki. Margt sem við tökum úr þessu sem við byggjum ofan á. Síðan eru þó nokkrir hlutir sem við þurfum að bæta okkur í. Við förum bara yfir það á næstu æfingum.“ Fjölnir sótti mörg stig í teiginn í kvöld. Hallgrímur sagði að hann hefði ekki endilega lagt upp með að skora lungan úr stigunum þar en vissulega væru hans konur öflugar í teignum. „Það eru auðvitað plúsar og mínusar. Þær eru fljótar á fótunum og hlaupa völlinn vel. Við erum stórar og sterkar og með góða skotmenn. Við vorum kannski ekki bara alveg á okkar skotdegi fyrir utan. En ég er alveg sammála. Við gerðum góða hluti inni í teig.“ Fjölnir er aðeins með tvo útlendinga meðan að mörg lið eru komin með þrjá, jafnvel fjóra. Hallgrímur sló þá hugmynd að fjölga útlendingum í liði Fjölnis rakleiðis út af borðinu. „Nei við erum ekki að fara að bæta við. Við erum með bráðefnilegar stelpur eins og þú sást. Ég hleypti þeim nú ekki öllum inn á en það voru margar ungar sem fengu tækifæri í dag. Stórt hrós á þær að bogna ekki undan þessu sviðsljósi og þessari stemmingu sem var hér í dag. Þannig að ég er bara mjög stoltur af öllum þeim sem komu inn á hjá okkur í dag.“ Það var frábær mæting í Grindavík í kvöld. Hallgrímur hrósaði Grindvíkingum sérstaklega fyrir aðstöðuna í HS-orku höllinni. „Mér finnst þetta hrikalega flott. Geggjaður. Sérstaklega eftir að þeir máluðu þessa hljóðveggi, þá er þetta allt annað. Ég held að það verði bara geggjuð stemming hjá Grindavík í vetur. Til hamingju Grindavík segi ég nú bara!“ Hallgrímur kvaðst spenntur fyrir komandi tímabili, það væri ekki annað hægt. Þrátt fyrir að það séu 89 dagar í jólin ætlar hann að halda upp á þau alla daga næstu níu mánuði. „Ég veit ekki af hverju það ætti ekki að vera geggjuð stemming. Við erum með tíu geggjuð lið. Þetta eru bara jólin, jólin verða bara næstu níu mánuði!“ Hulda Björk: „Það er alveg töggur í okkur“ Hulda á fleygiferð með boltann í leik með Grindavík í fyrraVísir/Vilhelm Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, fór fyrir sínum konum í kvöld. Hún hitti afar vel og það var ekki annað hægt en að spyrja hana hvernig henni liði að spila loks í nýja salnum. „Mér líður bara mjög vel og ég er bara mjög spennt að spila hérna í vetur!“ Hulda tók í sama streng og þjálfari hennar, Þorleifur Ólafsson. Grindvíkingar þyrftu að frákasta betur í næstu leikjum. Frammistaðan þar hefði í raun komið í veg fyrir að þær næðu að gera út um leikinn fyrr en raun bar vitni. „Við vorum bara ekki að stíga nógu vel út. Við vorum að láta þær ýta okkur svolítið út úr því sem við viljum gera. Að stíga út og taka fráköstin, það er það sem varð okkur að falli í þessum leik.“ Hún sagðist þó ekki hafa neinar áhyggjur af að fráköstin yrðu vandamál í vetur. „Nei alls ekki. Það er alveg töggur í okkur. Ég er bara spennt fyrir vetrinum og hef fulla trú á þessu liði.“ Þorleifur talaði um fyrir leik að markmiðið væri að ná í eitt af efstu fjórum sætunum í vetur. Hulda sagði að það væri klárlega í kortunum. „Ég er bara mjög bjartsýn, eins og ég sagði, ég er bara mjög spennt fyrir vetrinum!“
Leikjahæst frá upphafi: „Loksins núna að hætta að gráta, þannig ekki láta mig byrja aftur“ Körfubolti
Leikjahæst frá upphafi: „Loksins núna að hætta að gráta, þannig ekki láta mig byrja aftur“ Körfubolti