Í Reykjavík síðdegis var rætt við Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, formann velferðarnefndar Alþingis. Tilefnið var umfjöllum Kompáss í gær um það sem kallað hefur verið „Villta vestrið“ þegar kemur að fylliefnum. Í þættinum var rætt við íslenska konu sem var í lífshættu eftir meðferð sem byggði á alvarlegri vanþekkingu.
„Mér brá nú talsvert eins og sjálfsagt mörgum,“ sagði Bjarkey, spurð um sín viðbrögð við umfjölluninni.
„Þó maður hafi nú alveg séð úti á götum, sérstaklega ungar stúlkur með heldur breiðar og miklar varir og vitandi það að auðvitað væri verið að setja einhver efni í þær, þá áttaði maður sig ekki á hversu mikið Villta vestur þetta er.“
Hefur lagt fram fyrirspurn til ráðherra
Bjarkey segist í morgun hafa lagt fram skriflega fyrirspurn til Willum Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra um þessi mál og hvort hann hyggist setja einhvers konar reglugerð um notkun þessara efna.
„Mig langar líka bara að vita hvernig eftirlitinu bæði með notkun og innflutningi er háttað. Er hægt að panta þessi efni í gegnum erlenda vefverslun, ég veit það ekki. Ég er svona að velta því upp við hann líka og svo hvort landlæknir hafi einhver úrræði til þess að fylgjast með þessu og hvort það sé vitað hversu margir einstaklingar hafi leitað læknisþjónustu vegna þessa. Mér finnst þetta gríðarlega alvarlegt mál, þannig að mér finnst að við verðum einhvern veginn að bregðast við.“
Þá sagðist hún vona umræðan deyi ekki út á næstu dögum nú þegar hún sé farin af stað.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Bjarkeyju hér að neðan.