Fótbolti

Fresta leik vegna andláts leikmanns Sheffield United

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Maddy Cusack lést á dögunum, aðeins 27 ára að aldri.
Maddy Cusack lést á dögunum, aðeins 27 ára að aldri. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Leik Sheffield United og Crystal Palace í ensku B-deildinni kvennamegin hefur verið frestað eftir að leikmaður Sheffield United, Maddy Cusack, lést á dögunum.

Cusack lést í síðustu viku, aðeins 27 ára gömul. Ekki kom fram hver dánarorsök hennar var, en samkvæmt lögreglu var ekkert grunsamlegt við andlátið.

Sheffield United fór fram á að enska knattspyrnusambandið myndi fresta leik liðsins gegn Crystal Palace sem fram átti að fara um næstu helgi og nú hefur sambandið fallist á það.

Crystal Palace sendi svo frá sér tilkynningu í dag þar sem félagið greindi frá því að leik liðsins gegn Shefiield United hafi verið frestað, og sendi um leið samúðarkveðjur til allra innan félagsins.

Stuðningsmenn Sheffield United vottuðu Cusack virðingu sína fyrir heimaleik karlaliðsins um síðustu helgi þar sem liðið mátti þola 8-0 tap gegn Newcastle. Cusack hafði verið hjá félaginu síðan árið 2019 og varð fyrsti leikmaðurinn til að leika hundrað leiki fyrir kvennalið félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×