Í Kompás sem sýndur var á Stöð 2 á mánudag og birtist á Vísi í gær er fjallað um hætturnar sem geta falist í því að hér á landi gilda engar reglur um hverjir mega sprauta fylliefni í varir eða andlit annarra.
Efnin hættuleg í röngum höndum
Yfirlæknir hjá Embætti landlæknis hefur gríðarlegar áhyggjur af stöðunni.
„Þetta er ástand sem ekki er ásættanlegt, það er of mikið frelsi til að athafna sig með svona efni sem ekki teljast vera lyf en eru varasöm og hættuleg í sumum tilfellum,“ segir Björn Geir Leifsson, yfirlæknir hjá Embætti landlæknis.
Ástæða sé fyrir því að nágrannalöndin hafi gripið inn í með lagasetningu, enda geti fylliefni verið hættuleg í röngum höndum.
„Það er hætta á ferðum þegar einhver er sprautaður, það er ífarandi inngrip.“
Hann segir embættið hafa átt í samtali við heilbrigðisráðuneytið um stöðuna og telur að tafarlaust þurfi að grípa inn í, áður en illa fer.
Fáið þið oft tilkynningar eða kvartanir um fylliefnanotkun?
„Já við fáum það og höfum verulegar áhyggjur. Það er kannski ekki reglulega, einu sinni í mánuði en það eru allt of mörg svona tilvik og örugglega mörg, mörg tilvik sem við fáum aldrei upplýsingar um því fólk skammast sín eins og stúlkan í viðtalinu um daginn.“
Embættið hefur þó eingöngu heimild til að aðhafast ef um heilbrigðisstarfsmann eða heilbrigðisþjónustu er að ræða.
„Við höfum ekki heimildir til að hafa afskipti af einhverri manneskju á Laugaveginum sem er að sprauta fylliefni eða jafnvel að nota bótox eða nota fylliefnaleysi.“
Starfsemi sem sé hættuleg almenningi
Hefur þú áhyggjur af stöðunni?
„Ég er búinn að hafa áhyggjur lengi, miklar áhyggjur af velferð fólks og því að hér er í gangi starfsemi sem er varasöm, hættuleg almenningi og fólk áttar sig ekki á þessu. Það sem fólk þarf að gera það er að spyrja: Er sá sem ætlar að sprauta einhverju í mig menntaður eða löggildur? Iðnaðarmenn auglýsa: Er iðnaðarmaðurinn þinn löggildur?“
Auðvelt að nálgast upplýsingar um heilbrigðisstarfsmenn
Í Kompás kom fram að titlar þeirra sem sjá um að sprauta efninu geta verið misvísandi og jafnvel ýtt undir trú fólks á að fagaðili sjái um meðferðina. Sumir taka upp titla eftir netnámskeið sem eru ekki vottuð af einum né neinum og aðrir segjast með „þekkingu á sviði næringalækninga, íþróttalækninga og fegrunarmeðferða“, eru „húðsérfræðingar“ og „líftæknar“. Allt þetta hljómar sannfærandi en ekki er um löggiltar heilbrigðisstéttir að ræða.
„Ég er ekki viss um að múrarafélaginu þætti það í lagi ef einhver kallar sig múrsérfræðing en það er afskaplega einfalt í dag að athuga hvort einhver sé með löggilta heilbrigðismenntun og hún er á netinu, starfsleyfaskrá Embættis landlæknis,“ segir Björn.