Orðrómur um meint ástarsamband Kelces og Swifts hefur verið á sveimi undanfarnar vikur. Hann fékk byr undir báða vængi þegar Swift mætti á leik Chiefs og Chicago Bears á sunnudaginn. Hún var í einkasvítu Kelce-fjölskyldunnar í rauðum og hvítum Chiefs-jakka. Vel virtist fara á með henni og mömmu Kelces, Donnu.
Höfðingjarnir unnu Birnina örugglega, 41-10. Eftir leikinn sáust Kelce og Swift yfirgefa leikvanginn saman.
Kelce er með vikulegt hlaðvarp ásamt bróður sínum, Jason, sem nefnist New Heights. Í nýjasta þættinum tjáði hann sig um Swift.
„Ég vil hrósa Taylor fyrir að mæta. Það var hugað, mjög hugað. Mér fannst bara frábært hvað allir í einkastúkunni höfðu ekkert nema frábæra hluti að segja um hana,“ sagði Kelce.
„Hún leit frábærlega út, allir mærðu hana og ofan á allt var dagurinn fullkominn fyrir stuðningsmenn Höfðingjanna. Þetta var eins og handrit sem við höfðum skrifað.“
Swift er ein vinsælasta tónlistarkona heims og á sér stóran og dyggan aðdáendahóp. Þeir virðast vera ánægðir með Kelce enda jókst sala á treyjum hans um fjögur hundruð prósent eftir að hún mætti á leikinn á sunnudaginn.
Chiefs valdi Kelce í nýliðavali NFL 2013. Hann hefur leikið með liðinu allar götur síðan þá og tvisvar sinnum unnið Super Bowl með því.