Erlent

Kona látin eftir sprengingu í Upp­sölum

Atli Ísleifsson skrifar
Septembermánuður 2023 er orðinn sá mannskæðasti í átökum glæpagengja í Svíþjóð í fjögur ár.
Septembermánuður 2023 er orðinn sá mannskæðasti í átökum glæpagengja í Svíþjóð í fjögur ár. EPA

Tuttugu og fimm ára kona er látin eftir að sprengja sprakk í íbúahverfi í Fullerö, norður af Uppsölum í Svíþjóð, í nótt. Talið er að árásin tengist átökum glæpahópa í landinu, en samkvæmt heimildum SVT á konan ekki að hafa tengst hópunum og ekki verið skotmark árásarinnar.

Tilkynnt var um árásina klukkan 3:45 í nótt að staðartíma. Talsmaður lögreglu segir fimm hús að hafa skemmst í sprengingunni og þar af tvö mjög mikið.

Fram kemur að einstaklingur í einu húsanna sé með tengsl við Foxtrot-glæpahópinn, en í janúar síðastliðinn var skotið á sama hús. Sökum þessa segir lögregla að rannsókn standi nú yfir hvort árásin tengist átökum glæpahópa.

Sprengjusveit á vegum embættis ríkislögreglustjóra var send á staðinn til að rannsaka vettvanginn, en lögregla girti af stórt svæði í kringum húsin í nótt.

Árásir glæpahópa hafa verið sérstaklega tíðar Svíþjóð síðustu mánuði og segir í frétt SVT að septembermánuður sé sá mannskæðasti í fjögur ár. Þannig eru ellefu dauðsföll í september rakin til átakanna, þar af þrjú síðustu tólf tímana.

Í gærkvöldi bárust þannig fréttir af skotárás á íþróttavellinum Mälarhöjden, suður af Stokkhólmi, þar sem átján ára piltur var skotinn til bana. Skömmu síðar bárust fréttir af skotárás í Jordbro suður af Stokkhólmi þar sem annar maður var skotinn til bana. Í nótt bárust svo fréttir af sprengingunni í Fullerö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×