Þó kafbáturinn sé fullsmíðaður verður hann ekki tekinn í notkun fyrr en eftir tvö ár en gangi sjóprófanir og önnur próf vel verður um stærðarinnar skref að ræða fyrir eyríkið. Vonast er til þess að annar nýr kafbátur verði tekinn í gagnið fyrir árið 2027 og gæti sá kafbátur borið eldflaugar til að granda skipum.
Þessi nýjasti kafbátur er búinn rafbúnaði frá Lockheed Martin og notar Mark 48 tundurskeyti frá Bandaríkjunum.
„Áður, var heimasmíðaður kafbátur ekki talinn möguleiki en í dag er sjáið þið kafbát sem var hannaður og smíðaður af samlöndum ykkar hér fyrir framan ykkur,“ sagði Tsai í morgun, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Hún sagði einnig að kafbáturinn myndi auka getu flota Taívan til muna. Þó það væru áhættur í því að gera nýjan kafbát sem þennan yrðu Taívanar að taka þetta skref og byggja upp sjálfbærni í hergagnaframleiðslu.
Fyrir eiga Taívanar tvo kafbáta sem keyptir voru af Hollandi á níunda áratug síðustu aldar.
Hafa heitið því að ná tökum á Taívan
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinnar til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Ráðamenn í Kína hafa heitið því að sameina ríkin og með valdi ef svo þarf. Þeirra á meðal er Xi.
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.
Kínverjar hafa á undanförnum árum lagt mikið púður í hernaðaruppbyggingu og nútímavæðingu en ráðamenn í Bandaríkjunum segja eitt af markmiðum þessarar uppbyggingar vera að koma upp getunni til að ná tökum á Taívan með hervaldi.
Sjá einnig: Xi vill her í heimsklassa fyrir árið 2027
Bandaríkjamenn eru meðal þeirra sem hafa heitið því að koma Taívan til aðstoðar verði gerð innrás í eyríkið. Það hafa yfirvöld í Japan einnig gert.
Hernaðaruppbygging í Kína hefur að miklu leyti snúist að því að byggja vopn og þróa aðferðir til að eldflaugaárásir á herstöðvar Bandaríkjanna í vesturhluta Kyrrahafsins og granda flugmóðurskipum.
Samhliða aukinni getu Kínverja hefur hernaðarmáttur Taívans dregist saman á undanförnum árum. Þessari þróun vilja yfirvöld í Taívan snúa við. Reuters hefur eftir Joseph Wu, utanríkisráðherra Taívans, að ógnin frá Kína og blönduðum hernaði gegn Taívan væri sífellt vaxandi. Því þyrftu Taívanar að bæta varnir sínar.
Geri Kínverjar innrás í Tavían þyrftu þeir að flytja mikinn herafla yfir Taívan-sund og yrði það líklega að miklu leyti gert á skipum. Sú sigling yrði 130 kílómetra löng og Taívanar hafa haft sjötíu ár til að undirbúa varnir sínar og víggirða þá fáu staði þar sem hægt væri að lenda umfangsmiklum herafla.
Kafbátar myndu spila stóra rullu í því að stöðva eða hægja á innrás.