Sport

Martinez aftur meiddur og Ten Hag kennir leikjaálagi um

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Martinez verður frá keppni næstu mánuði
Martinez verður frá keppni næstu mánuði

Lisandro Martinez, varnarmaður Manchester United, verður frá keppni í að minnsta kosti tvo mánuði eftir að meiðsli sem hann varð fyrir á síðustu leiktíð tóku sig upp á ný. 

Leikmaðurinn meiddist í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á síðasta tímabili í leik Manchester United gegn Sevilla. Hann missti af restinni af tímabilinu, upphaflega litu hlutirnir reyndar verr út og talið var að hann hafi slitið hásin en síðar kom í ljós að hann hafði brákað ristarbein. 

Honum tókst að yfirstíga meiðslin og byrjaði tímabilið með Manchester United, en ristin hafði greinilega ekki gróið alveg því nú er leikmaðurinn aftur frá. Talið er að meiðslin hafi tekið sig aftur upp í leik gegn Arsenal síðustu helgi og hafi plagað leikmanninn síðan þá. 

Erik Ten Hag, þjálfari liðsins, staðfesti svo á blaðamannafundi í dag að Martinez yrði frá í lengri tíma. Hann segir leikjaálag vera of mikið og að leikmenn ráði ekki við alla leikina sem bæst hafa við síðustu ár. 

Auk Martinez hefur Sergio Reguilon, vinstri bakvörður, bæst við á meiðslalistann fyrir helgina þegar Manchester United tekur á móti Crystal Palace. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×