Á dögunum lenti merin Gáfa í áflogum við aðra hesta og slasaðist nokkuð alvarlega við það. Hún var mjög bólgin en í gær var dýralæknirinn Ingunn Reynisdóttir kölluð til.
„Við tókum röntgenmyndir af því og sáum að hún var ekki í lið. Svo við ákváðum að prófa að setja hana í lið, svæfðum hana og notuðum kálfatjakk til að fá strekkingu á fótinn og smella henni í lið aftur,“ segir Ingunn í samtali við Vísi.
Ingunn deildi myndskeiði af aðgerðum í gær á Facebook þar sem sést og heyrist greinilega þegar merin smellur í lið.
Fann eina erlenda grein
Ingunn segist ekki vita til þess að hesti hafi verið kippt í lið áður hér á landi en að hún hafi fundið eina erlenda grein um aðferðina. Hún segir að ekkert annað hafi komið til greina en að láta á það reyna.
„Það hefði bara verið aflífun, það var ekkert annað í stöðunni að prófa, eða þá að aflífa hana.
Löng endurhæfing fram undan
Þá segir hún að merin beri sig vel eftir atvikum en að nú taki við langt endurhæfingarferli.
„Hún er inni í stýju og verður þar allavega í mánuð og má lítið eða ekkert hreyfa sig. Hún má ekki heldur leggjast niður. Svo er hún á verkjastillandi og bólgueyðandi, fær að fara að hreyfa sig eftir tvær vikur.