Enski boltinn

Liver­pool ekki búið að segja sitt síðasta í VAR hneyksli helgarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah og félagar í Liverpool töpuðu sínum fyrsta leik um helgina en þótti á sér brotið.
Mohamed Salah og félagar í Liverpool töpuðu sínum fyrsta leik um helgina en þótti á sér brotið. Getty/Ryan Pierse

Varsjáin er oft á milli tannanna á fólki eftir hverja helgi í ensku úrvalsdeildinni en það er nýtt af nálinni að dómarar séu farnir að dæma af lögleg mörk og verja sig svo með því að þetta hafi allt verið einhver misskilningur eins og Georg Bjarnfreðarson forðum.

Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool var fórnarlamb mistaka myndbandadómara um helgina þegar löglegt mark var dæmt af liðinu í tapleik á móti Tottenham. Liverpool sendi frá sér yfirlýsingu í gær.

Liverpool var nýbúið að missa Curtis Jones af velli með rautt spjald þegar Luis Diaz kom liðinu í 1-0. Niðurstaða Varsjárinnar var hins vegar rangstæða og markið var dæmt af. Tottenham komst síðan yfir fljótlega í kjölfarið.

Þegar sönnunargögnin komu fram í dagsljósið var það ljóst öllum sem vildu sjá að Diaz var réttstæður og markið átti því að standa.

Stuðningsmenn og fjölmiðlar hneyksluðust á ákvörðun myndbandadómarana en Liverpool endaði á því að tapa leiknum á sjálfsmarki á lokasekúndunum.

Enska úrvalsdeildin hefur beðist formlega afsökunar á mistökum dómara sinna en Liverpool sættir sig ekki við að málið endi þar.

Dómararnir sem voru í VAR-herberginu voru sendir í skammarkrókinn og teknir af næstu verkefnum en Liverpool vill leita réttar síns.

Í yfirlýsingu félagsins segir að með þessu hafi verið grafið undir heiðarleika íþróttanna og Liverpool ætli að kanna hvað sé í boði til að fá ásættanlega niðurstöðu í þetta leiðinlega mál.

Mannleg mistök voru skýringin á mistökunum en mynbandadómarinn taldi sig við vera staðfesta að ekki hafi verið rangstaða en ekki að það hafi verið rangstaða.

Liverpool segir að útskýring ensku úrvalsdeildarinnar sé óásættanleg og kallar eftir rannsókn með fullu gagnsæi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×