„Ég á engin viðbrögð, sorrí,“ sagði klökkur Samúel í viðtali eftir að Vestri hafði tryggt sig upp í Bestu deildina. „Þetta er bara geggjað. Það er það eina sem ég get sagt. Þetta lið. Þetta fólk. Þetta er ótrúlegt.“
Samúel hefur staðið í forystu knattspyrnudeildar Vestra, þar áður BÍ/Bolungarvíkur í yfir sextán ár og er metnaður hans í því starfi vel þekktur.
Lengi vel hefur stefnan hjá Vestra verið sett á að ná inn liði í efstu deild hér á landi og nú hefur það tekist. Fjörutíu árum eftir að þáverandi lið Ísafjarðar, ÍBÍ, var í efstu deild.
Hvað gerði útslagið í ár?
„Davíð, strákarnir, þjálfarateymið og þetta fólk. Það gerði útslagið. Þetta er bara geggjað fólk, það er bara þannig. Ég er kannski í frontinum á þessu en hvað heldurðu að það sé mikið af fólki sem vinnur baki brotnu fyrir þetta félag. Út í gegn dag og nótt. Ég er bara í sviðsljósinu en það er fullt af fólki sem á þetta svo mikið skilið.“
Það var fyrir nýafstaðið tímabil sem Vestri gekk frá ráðningu á Davíð Smára Lamude í þjálfarastöðuna. Davíð Smári hafði unnið virkilega gott starf með Kórdrengjum þar áður.
Hvað gerir Davíð sem gerir útslagið í því að þið komist upp?
„Þetta er metnaðarfullur, grjótharður þjálfari. Við í Vestra höfðum oft spilað á móti honum og alltaf var það erfitt. Þetta var eitthvað sem við þurftum.“
Hvað ætlið þið að gera í efstu deild?
„Við erum ekki komin upp í Bestu deildina bara til þess að vera í Bestu deildinni. Við ætlum okkur að vera með.“
Viðtalið við Samúel í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.