Lífið

Fékk nóg eftir að hafa nauðungar­matað ein­stak­ling

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Flosi Þorgeirsson hefur bæði reynslu af því að starfa á geðdeild á Íslandi og í Danmörk auk þess sem hann hefur sjálfur leitað sér þar aðstoðar.
Flosi Þorgeirsson hefur bæði reynslu af því að starfa á geðdeild á Íslandi og í Danmörk auk þess sem hann hefur sjálfur leitað sér þar aðstoðar.

Flosi Þor­geirs­son, sjúkra­liði, sagn­fræðingur og tón­listar­maður segir mikinn mun vera á rétti sjúk­linga á geð­deildum á Ís­landi og í Dan­mörku þar sem hann hefur starfað. Flosi er fyrsti við­mælandi Lands­sam­taka Geð­hjálpar í októ­ber­mánuði þar sem sam­tökin standa fyrir vitundar­vakningu um geð­heil­brigðis­mál.

„Ef það var eitt­hvað inn­grip, ef við vorum til dæmis að óla sjúk­ling sem var hættu­legur öðrum eða sjálfum sér, óla hann við rúmið, þá var það ekki gert með hangandi hendi. Það var tekið mjög al­var­lega, af því að þetta voru inn­grip inn í per­sónu­lega frelsi þess ein­stak­lings,“ segir Flosi um tímann sem hann starfaði sem sjúkra­liði á geð­deild í Dan­mörku.

Hann hefur reynslu af því að starfa sem ó­fag­lærður á geð­deild hér á landi en einnig sem fag­lærður í Dan­mörku og á Ís­landi. Flosi hefur jafn­framt not­enda­reynslu en hann hefur talað opin­skátt um bar­áttu sína við þung­lyndi. Í við­talinu segir hann frá dæmum sem benda til þess að hér á landi sé ekki verið að gera hlutina nógu vel og þar kemur einnig fram að brotið sé á mann­réttindum fólks í geð­heil­brigðis­kerfinu.

Hvetja al­menning til að taka þátt

Mark­mið á­taks Lands­sam­taka Geð­hjálpar er að skapa vett­vang fyrir fólk til að segja sína skoðun á því hvað það telur mikil­vægast til að bæta geð­heilsu og geð­heil­brigðis­mál á Ís­landi. Tekin voru við­töl við þrjá ein­stak­linga með mis­munandi reynslu af geð­heil­brigðis­kerfinu: notandi, að­standandi og starfs­maður.

Í til­kynningu Geð­hjálpar segir að á þann hátt gefist fólki kostur á að hlusta á reynslu og sjónar­mið þessara ein­stak­linga og hefja um­ræður um þessi mál sem hafa því miður verið aftar­lega í for­gangs­röðinni þegar kemur að heil­brigðis- og lýð­heilsu­málum.

„Við hvetjum al­menning til að taka þátt og segja sína skoðun með því að fara á www.geð­heil­brigdi.is og koma þar á fram­færi hvað beri að setja í for­gang í geð­heil­brigðis­málum á Ís­landi.“

Sjúk­lingar beittir of­beldi á Ís­landi

Flosi segir að það sé gríðar­legur munur á því hvernig sjúk­lingar séu með­höndlaðir á geð­deildum á Ís­landi og í Dan­mörku. Í Dan­mörku hafi strangar reglur gilt um slíkt.

„Um leið og læknirinn til­kynnti honum að á­standið væri nú bara þannig að við verðum að grípa til þessara neyðar­ráð­stafana en þú átt rétt á að tala við patient­for­taler, sem er um­boðs­maður sjúk­linga og kæra þetta, ef þú ert ó­sáttur við þetta,“ segir Flosi.

„Þetta var allt öðru­vísi hér á Ís­landi. Þar beittum við alveg of­beldi og inn­gripi og það var enginn spurður um neitt. Þetta hafði greini­lega alltaf verið gert svona og það var bara talið nauð­syn­legt. Sér­stak­lega man ég eftir því að hafa nauðungar­baðað ein­stak­ling bæði í Dan­mörku og á Ís­landi og munurinn var bara eins mikill og hann getur framast orðið.“

Upp­lifir mikla goggunar­röð meðal heilbrigðisstarfsfólks

Flosi lýsir því að í Dan­mörku hafi hann sem sjúkra­liði á geð­deild verið gert að vera tengi­liður eins sjúk­lings. Þannig hafi hann fengið að­gang að sjúkra­skrá sjúk­lingsins.

„Ég kynni mér sjúkra­sögu hans, fæ að lesa hana, sem sjúkra­liðar hér á landi fá alls ekki. Kynni mér hvaða lyfjum hann er á, sem sjúkra­liðar hér á Ís­landi hafa engan að­gang að og ekki ætlast til að þeir viti neitt um slíkt. Þannig að sjúkra­liðar hér vita oft ekkert, það gleymist kannski að segja þeim, ég upp­lifði það, ef að sjúk­lingur er með lifra­bólgu eða aids. Það gleymdist að segja okkur það.“

Flosi segir að í Danmörku hafi verið lögð áhersla á það að starfað væri í teymi. Hann segir að það sé sín upp­lifun að á Ís­landi sé mikil goggunar­röð meðal heil­brigðis­starfs­manna. Læknar hafi verið efstir, hjúkrunar­fræðingar svo og sjúkra­liðar á eftir þeim.

„Okkur var treyst til að skipta á rúmum en það var ekkert mikið meira en það. Ég var svona fyrsta árið alltaf að bera saman Ís­land og Dan­mörku og svo held ég að ég hafi orðið meira og meira sam­dauna því hvernig þetta var gert á Ís­landi.“

Fékk nóg

Flosi lýsir því að það hafi komið að því þegar hann var að vinna á geð­deild hér á landi að starfs­mönnum hafi verið skipað að nauðungar­mata ein­stak­ling. Læknir hafði sam­þykkt það og hjúkrunar­fræðingar stjórnuðu þeirri að­gerð.

„Þetta voru svona mið­alda­að­ferðir.Ég hélt þarna einum hand­legg og annar starfs­maður hélt öðrum hand­legg og það var líka haldið um höfuð hennar og fætur. Svo var manneskja með skeið að reyna að koma skeiðinni, þessi sjúk­lingur var lystar­stol­sjúk­lingur og á­kveðin í því að fá ekki mat í sig, þannig að þetta náttúru­lega endaði með því að hún var bara blóðug um munn­vikin.“

Flosi segir að þarna þegar hann hafi verið í þessu þá hafi sér fundist eins og hann hafi vaknað. Hann hafi ekki getað haldið á­fram störfum.

„Eftir þetta á­kvað ég bara að ég gæti ekkert verið í þessu lengur. Munurinn var of mikill. Það var of erfitt að fara frá því að vinna í Dan­mörku og á Ís­landi. Ég verð eigin­lega bara að vera hrein­skilinn.“

Ó­fag­lærðir fá ekki starf á geð­deild í Dan­mörku

Hann segir það ekki breyta því að hann hafi unnið með mörgu frá­bæru starfs­fólki. Flosi hóf sjálfur störf á geð­deild hér á landi ó­fag­lærður en fékk það ekki í Dan­mörku. Því gerðist hann sjúkra­liði.

„Breytir því samt ekki að ég vann með mörgu frá­bæru starfs­fólki. Margir af þessu ó­fag­lærðu starfs­mönnum vildu mjög vel og yfir­leitt var þetta fólk sem hafði á­huga á geð­deildunum líka en skorti nauð­syn­legan bak­grunn og það var mikil starfs­manna­velta og því miður lenti ég í því að vinna með starfs­fólki sem aldrei hefði átt að fá starf hérna á Ís­landi. Fólk sem var alls ekki í stakk búið til þess að takast á við þetta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.