Fótbolti

Lewandowski meiddist í sigri Barca | Lazio sótti sigur til Skotlands

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gamla brýnið Pedro var hetja Lazio í kvöld.
Gamla brýnið Pedro var hetja Lazio í kvöld. Vísir/Getty

Barcelona gerði góða ferð til Portúgal í kvöld þegar liðið vann sigur á Porto í Meistaradeildinni. VAR var í stóru hlutverki í leikjum kvöldsins.

Barcelona og Porto eru á meðal þeirra liða sem hafa hvað oftast tekið þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Liðin mættust í Portúgal í kvöld þar sem Barcelona fór með sigur af hólmi. Robert Lewandowski fór meiddur af velli í fyrri hálfleik en varamaður hans Ferran Torres var hetja Barca í kvöld.

Torres skoraði eina mark leiksins þegar hann slapp einn í gegnum vörn Porto eftir frábæra sendingu Ilkay Gundogan. Lokatölur 1-0 og Barcelona með fullt hús stiga eftir tvær umferðir.

VAR hafði í nógu að snúast í Zagreb þar sem Rauða Stjarnan tók á móti Young Boys. Tvö mörk voru dæmd af Rauðu Stjörnunni í fyrri hálfleik en mark Cherif Ndiaye á 35. mínútu slapp þó í gegnum skoðun eftir að upphaflega var dæmd rangstaða.

Filip Ugrinic jafnaði metin fyrir Young Boys snemma í síðari hálfleik og Cedric Itten skoraði úr vítaspyrnu fyrir svissneska liðið en vítaspyrnan var dæmd eftir skoðun myndbandsdómara.

Þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma jafnaði Osman Bukari hins vegar metin fyrir heimaliðið. Lokatölur 2-2 og bæði lið nú komin á blað í G-riðli.

Lazio gerði góða ferð til Skotlands og vann þar 2-1 sigur á Celtic. Japaninn Kyogo Furuhashi kom Celtic yfir á 12. mínútu en Matias Vecino jafnaði metin þegar stundarfjórðungur var eftir af fyrri hálfleik.

Allt stefndi í 1-1 jafntefli en á fimmtu mínútu uppbótartíma skoraði Pedro sigurmarkið fyrir Lazio og tryggði liðinu sætan 2-1 sigur. Þetta er annar leikurinn í röð þar sem mark í uppbótartíma tryggir Lazio stig í riðlinum en markvörður liðsins jafnaði metin í fyrstu umferðinni gegn Atletico Madrid.

Í Þýskalandi gerðu Dortmund og Milan 0-0 jafntefli í nokkuð fjörugum leik. Liðin eru í þriðja og fjórða sæti F-riðils en það stefnir í mikla spennu í þeim riðli þar sem Newcastle og PSG skipa sætin fyrir ofan.

Úrslit kvöldsins:

Porto - Barcelona 0-1

Rauða Stjarnan - Young Boys 2-2

Celtic - Lazio 1-2

Dortmund - Milan 0-0

RB Leipzig - Manchester City 1-3

Newcastle - PSG 4-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×