Erlent

Minnst 180 farist og talið að fleiri muni finnast

Eiður Þór Árnason skrifar
Loftmynd af Herat-héraði í Afganistan sem fór illa út úr náttúruhamförunum.
Loftmynd af Herat-héraði í Afganistan sem fór illa út úr náttúruhamförunum. AP/Rodrigo Abd

Nærri 200 hafa farist í tveimur öflugum jarðskjálftum sem riðu yfir Afganistan í dag. Skjálftarnir mældust 6,3 að stærð og fylgdu minnst sjö kröftugir eftirskjálftar í kjölfarið. Þetta er í annað skiptið á innan við einu og hálfu ári sem öflugir jarðskjálftar skekja landið.

Minnst 180 manns hafa farist og um 600 særst, samkvæmt upplýsingum frá yfirmanni sjúkrahúss í Herat-héraði í vesturhluta landsins sem fór hvað verst út úr skjálftahrinunni. New York Times greinir frá þessu en gert er ráð fyrir að tölurnar muni hækka eftir því sem leitar- og björgunaraðgerðum miðar áfram.

Ríkisstjórn Talibana hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu þar sem hætta er talin á því að fleiri eftirskjálftar fylgi.

Rúmt ár síðan yfir þúsund fórust í skjálfta

Um tólf þorp í Zinda Jan-héraðinu eru sögð gjöreyðilögð og 600 einstaklingar þar verið færðir undan húsarústum. Myndskeið sem birtust á samfélagsmiðlum sýna hundruð manna yfirgefa heimili og skrifstofuhúsnæði í snarhasti í borginni Herat, af ótta við að byggingarnar myndu hrynja í átökunum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sendi tólf sjúkrabíla á dreifbýlli svæði í Herat-héraði til að aðstoða við aðgerðir. Stjórnvöld í Afganistan hafa gert hermönnum og viðbragðsaðilum að forgangsraða svæðum sem fundu vel fyrir skjálftunum, veita mataraðstoð og setja upp skýli fyrir fólk sem hefur misst heimili sín.

Náttúruhamfararinnar í dag fylgja á eftir mannskæðum flóðum og jarðskjálftum sem hafa hrjáð íbúa landsins síðustu ár. Í júní í fyrra reið jarðskjálfti að stærð 5,9 yfir suðausturhluta Afganistan með þeim afleiðingum að yfir eitt þúsund fórust og um 1.600 aðrir særðust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×