Skjálftarnir urðu skammt frá borginni Herat í samnefndu héraði skammt frá landamærum Afganistan og Íran. Sá stærsti mældist 6,3 að stærð en átta kröftugir eftirskjálftar fylgdu.
Talsmaður hamfararáðuneytis Afganistan sagði meira en 2060 manns hafa látist og meira en tíu þúsund slasast. Björgunaraðgerðir standa enn yfir og óttast er að tala látinna hækki enn fremur.
Þá sagði hann tólf þorp í Zindeh Jan-unmdæmi og sex þorp í Ghoryan-umdæmi vera gjöreyðilögð. Stór hluti íbúa á því svæði er flóttafólk frá Íran og Pakistan auk þess sem mikil fátækt ríkir í þeim þorpum.
Talsmaður Talíbana hefur biðlað til annarra þjóða að veita fram þá aðstoð sem þau geta, en heilbrigðiskerfið í landinu hefur þurft að reiða sig á utanaðkomandi aðstoð eftir mikinn niðurskurð í kjölfar valdatöku Talíbana. Diplómatar og talsmenn hjálparstarfa hafa lýst yfir áhyggjum af því að Afganar fái ekki nægilega aðstoð frá öðrum þjóðum vegna þeirra hamla sem settar hafa verið á konur í landinu eftir að Talíbanar tóku völd.