Innlent

Ástarlífið blómstrar í Fjallabyggð

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, sem ræður sér ekki yfir kæti hvað allt gengur vel í Fjallabyggð og hvað það er mikill kraftur í samfélaginu.
Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, sem ræður sér ekki yfir kæti hvað allt gengur vel í Fjallabyggð og hvað það er mikill kraftur í samfélaginu. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Íbúum í Fjallabyggð fjölgar og fjölgar enda segir bæjarstjórinn að ástarlífið blómstri í sveitarfélaginu. Þá er verið að byggja mikið af nýju húsnæði í Fjallabyggð eins og á Siglufirði og í Ólafsfirði.

Það er mikill uppgangur í Fjallabyggð og allt að gerast þar eins og stundum er sagt. Nú er stefnt að því að taka 10 mánaða gömul börn inn í leikskóla sveitarfélagsins, grunnskólar sveitarfélagsins og menntaskólinn á Tröllaskaga blómstra og næga atvinnu eru að hafa í Fjallabyggð. Þá er lista- og menningarlíf til fyrirmyndar svo ekki sé minnst á íþróttastarfið.

Og íbúum Fjallabyggðar fjölgar og fjölgar eins og Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri veit manna best.

„Okkur er að fjölga verulega og það er mjög ánægjulegt. Við erum núna orðin tæplega 2.030 og við stefnum bara á meiri fjölgun. Ég bara bíð fólk hjartanlega velkomin til okkar hingað,“ segir Sigriður alsæl.

Ertu með einhverjar sérstakar áskoranir til fólks til að búa til fleiri börn og svona?

„Heyrðu, ég vil náttúrulega bara að ástarlífið blómstri og við bara tökum mjög vel á móti nýjum einstaklingum hér í bæjarfélagið, bæði fullorðnum einstaklingum, sem vilja stunda fjörugt ástarlíf og geta af sér góð afkvæmi og svo náttúrulega þegar börnin fæðast þá tökum við mjög vel á móti þeim,“ segir Sigríður hlæjandi.

Íbúum Fjallbyggðar fjölgar og fjölgar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og það er töluvert byggt af nýju húsnæði í Fjallabyggð eins og á Siglufirði.

„Já, verktaki er að fara að byggja 27 íbúðir á gamla malarvellinum. Svo er verið að byggja hérna á Eyrinni og í Bylgjubyggðinni í Ólafsfirði, svo það er nóg um að vera,“ segir bæjarstjóri Fjallabyggðar.

Eitt af nýju húsunum, sem eru í byggingu í Fjallabyggð, myndarlegt raðhús á Siglufirði.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×