Innlent

Ó­veðrið byrjað og bílar fastir

Oddur Ævar Gunnarsson og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Svona var staðan í Bröttubrekku klukkan 13:25.
Svona var staðan í Bröttubrekku klukkan 13:25. Vegagerðin

Björgunar­sveitir eru byrjaðar að finna fyrir veðrinu. Appel­sínu­gular veður­við­varanir eru í gildi á Norður­landi og gular við­varanir annars staðar á landinu, utan höfuð­borgar­svæðisins.

„Við erum að finna fyrir veðrinu núna. Það er tals­vert rok orðið í Eyjum og búið að boða út björgunar­sveitina þar vegna foktjóns,“ segir Jón Þór Viglunds­son, upp­lýsinga­full­trúi Lands­bjargar.

„Það eru fastir bílar í Bröttu­brekku og ó­færð þar, sem er búið að boða björgunar­sveit í úr Búðar­dal. Þannig að við erum byrjuð að finna fyrir því að þetta veður er að ganga yfir.“

Við­varanir eru í gildi þar til klukkan 11:00 í fyrra­málið á Suð­austur­landi. Á Austur­landi klárast veðrið klukkan 10:00 í fyrra­málið, á Norður­landi klukkan 06:00 og á Vest­fjörðum og á Vestur­landi klukkan 02:00 í nótt.

Jón Þór segir björgunar­sveitir í bið­stöðu. Farið hafi verið í tvö út­köll í dag, meðal annars í Bolungar­vík þar sem bátur hafi slitnað frá bryggju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×