Ummælin lét hann falla þegar hann ávarpaði leiðtoga gyðinga í Bandaríkjunum.
Tveir háttsettir embættismenn sögðu í samtali við NBC News að Biden hefði aðeins verið að vísa til fregna þess efnis að börn hefðu verið afhöfðuð.
Deilt hefur verið um fregnirnar á samfélagsmiðlum og skrifað um málið í fréttum.
Ísraelski herinn hefur ekki viljað staðfesta að börn hafi verið afhöfðuð en hins vegar sagði talsmaður Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, í gær að ungabörn og börn hefðu fundist afhöfðuð í Kfar Aza, þar sem talið er að yfir hundrað manns hafi verið drepnir af Hamas-liðum á laugardag.
Nokkrir miðlar hafa haft eftir ísraelskum hermönnum, í gegnum þriðja aðila, að börn hafi fundist afhöfðuð í Kfar Aza. Má þar nefna CBS News, sem hafði fregnirnar eftir Libby Weiss, einum talsmanna Ísraelshers.
Þá hefur CBS það eftir Yossi Landau, yfirmanni björgunarsveita í suðurhluta landsins, að hann hafi sjálfur séð ungabörn og börn sem hafi verið afhöfðuð.
„Ég sá miklu meira sem ég get ekki lýst núna því það er mjög erfitt,“ sagði hann. Börn og foreldrar hefðu fundist með bundnar hendur og augljós ummerki um pyntingar.
Greint hefur verið frá því að allt að 40 börn hafi fundist afhöfðuð en þær fréttir virðast ekki fást staðist.
Það voru blaðamenn ísraelsku sjónvarpsstöðvarinnar i24NEWS sem sögðu fyrst frá því að börn hefðu verið afhöfðuð og höfðu eftir ísraelskum hermönnum. Talsmaður hersins sagðist í samtali við The Intercept ekki geta staðfest fregnirnar en það væri augljóst að mörg hroðaverk hefðu verið framin.
Intercept segir hermenn einnig hafa sagt blaðamönnum að einhverjar afhöfðanir hefðu átt sér stað. Þetta virðist vera nærri því sem hægt er að staðfesta en Benjamin Netanyahu sagði sjálfur í ræðu í gær að hermenn hefðu verið afhöfðaðir, auk þess sem börn hefðu verið bundin og skotin í höfuðið.
Þá hefði ungum konum verið nauðgað og fólk brennt lifandi.