Skoðun

Betri tíð í samgöngumálum

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Þau sem fylgst hafa með um­ræðum um sam­göngu­mál á höfuð­borgar­svæðinu síðustu árin og ára­tugina hafa orðið vitni af stöðugum á­greiningi milli ríkis og sveitar­fé­laga og þá sér­stak­lega á milli ríkis og Reykja­víkur­borgar. Ég ætla hér í þessum greinarstúf að beina athygli að samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega að samgöngusáttmálanum sem undirritaður var af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Fyrir undirritun samgöngusáttmálans hafði ríkt al­gjör stöðnun í sam­göngum hér á þessu fjöl­mennasta svæði landsins og af­leiðingarnar voru aug­ljósar; sí­fellt þyngri um­ferð, meiri tafir og meiri mengun.

Almennt séð þá tel ég að það séu ekki ýkja margir sem gera sér grein fyrir því af­reki sem Sigurður Ingi Jóhanns­son, innviðaráðherra, vann með því að ná þessum samningi í gegn á sínum tíma. Þar er mikilvægast að sveitarfélögin er nú sameinuð í sinni framtíðarsýn þegar kemur að samgöngumálum. Því miður er umræðan um samgöngusáttmálann ekki á þeim stað sem hún þarf að vera. Umræðan snýst eingöngu um fjármagn en ekki stóru myndina og þá miklu framtíðarsýn sem hann samgöngusáttmálinn staðfestir. Það er nú þannig að ekkert gert án fjármuna um leið og tæknin þróast á ógnarhraða. Að því sögðu er að sjálfsögðu eðlilegt og nauðsynlegt að allar áætlanir, hvort sem um er að ræða kostnaðar- eða framkvæmdaáætlanir, séu stöðugt til skoðunar með það að markmiði að fjármunir séu vel nýttir og að við séum að styðjast við bestu tækni. Viðræðuhópur hefur verið skipaður fulltrúum ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú að því að rýna í áætlanir sáttmálans með það fyrir augum að uppfæra forsendur hans og undir­bún­ing á viðauka við hann.

Samvinna skilar betri árangri

Sam­göngu­sátt­málinn sem skrifað var undir árið 2019 markaði tíma­mót að mörgu leyti. Með sáttmálanum sameinuðust ríki og sveitarfélögin á höfuð­borgarsvæðinu um framtíðarsýn og markmið fyrir samgöngur á svæðinu. Sú leið var ekki ein­föld, eða niðurstaðan auðsótt, enda ólík sjónar­mið uppi milli sveitarfélaga. En með þessu sam­tali ráð­herrans við sveitar­fé­lögin og Vega­gerðina var ísinn brotinn og við í­búar á höfuð­borgar­svæðinu öllu erum farin að sjá fram á betri tíð í sam­göngum. Mikilvægar framkvæmdir hafa nú þegar klárast, svo sem á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, Suður­landsvegi milli Vesturlandsvegar og Hádegismóa og á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Þá hafa einnig verið lagðir rúmlega 13 km af hjólastígum.

Á höfuðborgarsvæðinu er nú unnið að stórfelldri uppbyggingu innviða fyrir alla ferðamáta. Tímabærar framkvæmdir á stofnvegum þar sem umsvifa­mest er lagning stórra umferðaræða í stokka, munu greiða fyrir umferð, draga úr umhverfis­áhrifum og skapa mannvænni byggð í grennd við umferðaræðar. Þróun hágæðaalmenn­ings­samgangna ásamt nýju stofnleiðakerfi hjólreiða er svo lykilþáttur í þróun svæð­isins í átt að sjálfbærara borgarsamfélagi. Aukin hlutdeild almenningssamgangna í ferðamáta­vali á svæðinu mun greiða fyrir umferð og halda aftur af aukningu umferðartafa á svæð­inu. Sjálfbærara samfélag er mikilvægur þáttur í að auka lífsgæði og efla samkeppnis­hæfni svæðisins, en höfuðborgarsvæðið er í samkeppni um mannauð við stórborgir í nágranna­lönd­um. Niður­staðan er fjöl­breyttar sam­göngur þar sem stofn­brautir verða byggðar upp, göngu- og hjóla­stígar lagðir og inn­viðir al­vöru al­mennings­sam­gangna verða að veru­leika. Allt styður þetta við heil­brigðara sam­fé­lag, styttir ferða­tíma á svæðinu, minnkar mengun og eykur allt umferðaröryggi.

Höfundur er þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×