Handbolti

Sigvaldi skoraði átta í Meistaradeildinni | Magdeburg vann sinn annan sigur í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson raðaði inn mörkum fyrir Kolstad í kvöld.
Sigvaldi Björn Guðjónsson raðaði inn mörkum fyrir Kolstad í kvöld. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæsti maður vallarins er norska liðið Kolstad vann öruggan 13 marka sigur gegn Pick Szeged í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld. Í B-riðli vann Íslendingalið Magdeburg svo góðan sigur gegn Wisla Plock.

Sigur Sigvalda og félaga í Kolstad var í raun aldrei spurning er liðið tók á móti Pick Szeged. Heimamenn í Kolstad skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins og náðu fljótlega sex marka forskoti í stöðunni 12-6. Sigvaldi og félagar tóku svo öll völd á vellinum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og leiddu með 13 mörkum þegar komið var að hálfleikshléinu, staðan 24-11.

Síðari hálfleikurinn var því hálfgert formsatriði fyrir Kolstad sem hleypti muninum aldri niður fyrir tíu mörk. Heimamenn unnu að lokum öruggan 13 marka sigur, 37-24, og liðið situr nú í fjórða sæti A-riðils með fjögur stig eftir fjóra leiki.

Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæsti maður vallarins með átta mörk úr aðeins níu skotum.

Þá vann Íslendingalið Magdeburg góðan tveggja marka sigur er liðið heimsótti Wisla Plock. Gestirnir í Magdeburg náðu fimm marka forskoti snemma leiks, en heimamenn klóruðu sig aftur inn í leikinn og munurinn var aðeins tvö mörk í hálfleik, staðan 12-14.

Munurinn í síðari hálfleik varð svo aldrei meiri en þrjú mörk og um tíma skiptust liðin á að hafa forystuna. Það voru þó að lokum Evrópumeistararnir í Magdeburg sem unnu nauman tveggja marka sigur, 26-28.

Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg í kvöld, en Janus Daði Smárason komst ekki á blað. Magdeburg situr nú í fjórða sæti B-riðils með fjögur stig, en liðið tapaði fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×